Íþróttir

Varmahlíðarskóli keppir til úrslita í skólahreysti

Varmahlíðarskóli sigraði 6. riðil í undankeppni skólahreystis og er því búið að tryggja sér sæti í úrslitum sem fara fram í Laugardalshöll 21. maí. Á heimasíðu skólans segir að í upphafi keppni hafi strax orðið ljóst að Varmahlíðarskóli ætlaði sér sigur en hann var efstur í tveimur af fjórum einstaklingsgreinum áður en kom að hinni æsispennandi hraðaþraut sem vannst með yfirburðum.
Meira

Liði Tindastóls spáð þriðja sæti í Lengjudeildinni

Lengjudeild kvenna í knattspyrnu hófst í gærkvöldi með tveimur leikjum og í kvöld spila Stólastúlkur fyrsta leik sinn. Þá fá þær lið Grindavíkur í heimsókn í vetrarríkið hér fyrir norðan. Í spá Fótbolta.net sem kynnt var fyrr í vikunni var liði Tindastóls spáð þriðja sætinu í deildinni en Grindvíkingum því sjötta en það eru þjálfarar, fyrirliðar og forráðamenn félaga deildarinnar sáu um að spá. Leikurinn í kvöld hefst kl. 18:30 og eru stuðningsmenn Tindastóls hvattir til að fjölmenna á völlinn.
Meira

Rakel Sif varð norskur meistari í U16 körfubolta

Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni segir einhversstaðar. Nú á sunnudaginn varð lið Kjelsås norskur meistari í U16 körfubolta kvenna þegar liðið lagði Ulriken Eagles í æsispennandi úrslitaleik, 84-82. Liðin eru skipuð stúlkum sem er fæddar árið 2006 og ein þeirra sem hampaði bikarnum í leikslok var Rakel Sif Ómarsdóttir, dóttir Siglfirðingsins Báru Pálínu Oddsdóttur og körfuboltakappans og Króksarans Ómars Sigmarssonar sem er þjálfari liðsins.
Meira

Lið Ýmis hafði betur eftir vítaspyrnukeppni

Það var spilaður fótbolti á Króknum í gær þrátt fyrir kuldabola og norðanderring. Lið Tindastóls og Ýmis mættust þá á gervigrasinu í úrslitakeppni C-deildar Lengjubikarsins. Þrátt fyrir slatta af tækifærum tókst liðunum ekki að koma boltanum í mörkin tvö í venjulegum leiktíma og þurfti þá að grípa til vítaspyrnukeppni. Þar höfðu gestirnir úr Kópavogi betur og sigruðu 2-4.
Meira

Tindastóll í úrslit! | UPPFÆRT

Tindastóll og Njarðvík mættust í fjórða leiknum í rimmu liðanna í undanúrslitum Subway-deildarinnar í Síkinu í kvöld. Talið er að um 1200 manns hafi troðið sér í Síkið og fengu flestir eitthvað fyrir sinn snúð og rúmlega það. Leikurinn var æsispennandi en gestirnir byrjuðu betur. Stólarnir löguðu stöðuna í öðrum leikhluta en gestirnir leiddu í hálfleik, 45-47. Þriðji leikhlutinn reyndist Stólunum dýrmætur að þessu sinni og liðið náði undirtökunum í leiknum en gestirnir minnkuðu muninn í tvö stig, 77-75, þegar fjórar mínútur voru eftir. Stólarnir héldu vel á spöðunum síðustu mínúturnar og sigruðu að lokum, 89-83, og tryggðu sér þannig réttinn til að spila við Valsmenn í úrslitaeinvíginu. Þvílíka snilldin!
Meira

Stólastúlkur áfram í 2. umferð Mjólkurbikarsins

Lengjudeildarlið Tindastóls og HK mættust á gervigrasinu á Króknum í dag í fyrstu umferð Mjólkurbikars kvenna. Lið Tindastóls fékk fljúgandi start og leiddi 3-0 í hálfleik þó það geti nú varla talist hafa verið samkvæmt gangi leiksins. Lið HK kvittaði fyrir sig með tveimur mörkum snemma í síðari hálfleik og spenna hljóp í leikinn. Stólastúlkur náðu að stoppa í götin að mestu í vörninni og þrátt fyrir talsverða pressu HK tókst þeim ekki að jafna leikinn og það var því lið Tindastóls sem vann leikinn 3-2 og tryggði sér sæti í 2. umferð. Þar mæta stelpurnar 2. deildar liði ÍR og verður leikið á Króknum 15. maí.
Meira

Allt undir í Síkinu í kvöld

Það þarf eflaust ekki að minna nokkurn á það að Tindastóll og Njarðvík mætast í Síkinu í kvöld í fjórðu viðureign liðanna í undanúrslitum Subway-deildarinnar. Feykir spáir því að það verði barist frá fyrstu til síðustu sekúndu enda er allt undir; Tindastóll leiðir einvígið 2-1 og vilja pottþétt tryggja sér farseðilinn í úrslitarimmu gegn liði Vals á heimavelli í kvöld á meðan gestirnir úr Njarðvík verða að vinna leikinn til að halda draumnum sínum á lífi og tryggja sér oddaleik í Ljónagryfjunni suður með sjó.
Meira

Reynist Basi vera markahrókur?

Knattspyrnudeild Tindastóls hefur samið við Jordán Basilo Meca, sem er iðulega kallaður Basi, um að leika með karlaliðinu í 4. deildinni í sumar. Basi er 24 ára sóknarmaður frá Spáni og er von á honum á Krókinn í næstu viku.
Meira

Tindastólsmenn enn að í Lengjubikarnum

Tindastóll spilaði við lið Hamars í gær í 8 liða úrslitum í C-deild Lengjubikarsins og var spilað á Domusnovavellinum í Reykjavík. Hvergerðingar komust yfir um miðjan fyrri hálfleik en Stólarnir svöruðu að bragði og gerðu síðan sigurmarkið í síðari hálfleik en þá voru Króksararnir orðnir einum færri. Lokatölur því 2-1 fyrir Tindastól.
Meira

Deildarmeistararnir ljómuðu í Ljónagryfjunni

Ekki fór það nú svo að Tindastólsmenn þyrftu að brúka kúst og fæjó í Ljónagryfju þeirra Njarðvíkinga í gærkvöldi þegar liðin áttust við í þriðja leik sínum í undanúrslitum Subway-deildarinnar. Möguleikinn var fyrir hendi en heimamenn reyndust ekki hafa áhuga á því að fara í sumarfrí og voru einfaldlega betri en Stólarnir að þessu sinni og nældu í sanngjarnan sigur. Lokatölur voru 93-75 og það má því reikna með hamagangi og látum þegar liðin leiða saman hesta sína í fjórða leiknum sem fram fer í Síkinu nk. laugardagskvöld.
Meira