Bæði körfubolti og fótbolti á Króknum í kvöld
Fyrsti körfuboltaleikur tímabilsins á Króknum fer fram í kvöld en þá mætast lið Tindastóls og Breiðablik b í 1. deild kvenna. Leikurinn hefst kl. 19:15 og eru stuðningsmenn hvattir til að fjölmenna og styðja Stólastúlkur til sigurs.
Reyndar var báðum liðum spáð döpru gengi í vetur í spá formanna, þjálfara og fyrirliða liðanna í deildinni. Bæði lið vilja efalaust afsanna spárnar og krækja í sigur í fyrsta leik. Miðasala er á staðnum og minnt er á ársmiðasöluna. Sjoppan verður opin fyrir síþyrsta og svanga.
Þeir sem vilja frekar vera úti en inni geta skellt sér á fótboltavöllinn því sameinað 2. flokks lið Tindastóls/Hvatar/Kormáks mætir liði RKVG (Reykjanesúrvalið) á gervigrasinu kl. 19:30 í kvöld. Stelpurnar eru í sjöunda sæti í B-deild U20 en gaman væri að sjá þær krækja í stig í síðasta leik sumarsins.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.