Skagfirðingar börðust í íþróttahúsinu í Mosó
Það var víst mikil Skagfirðingarimma háð í íþróttahúsinu að Varmá í Mosfellsbæ í hádeginu í dag en þá áttust við lið Aftureldingar og Tindastóls í 8. flokki stúlkna í körfubolta. Í færslu Rúnars Birgis Gíslasonar, Varmhlíðings að fornu en núverandi Mosfellings, á Skín við sólu, segir að í það minnsta fjórar stúlkur í liði Aftureldingar eigi skagfirska foreldra. Feykir kannaði aðeins málið.
Stelpurnar sem um ræðir eru Sigurbjörg, dóttir Önnu Sólveigar Sigurðardóttur, Helena, dóttir Ingvars Ormarssonar flugmanns og 3ja stiga skyttu og þá á Elín Helga Rink Gunnarsdóttir, systir Hinna Gunn, tvær dætur í liðinu, þær Nadíu og Marínu.
„Báðir dómararnir eru Skagfirðingar, ritarinn sonur Skagfirðings og auðvitað allt Tindastólsliðið Skagfirðingar. Það er ekki ólíklegt að meirihluti áhorfenda hafi verið Skagfirðingar,“ segir í færslu Rúnars. Dómararnir voru Ingvi Guðmundsson (Jenssonar) og Rúnar sjálfur og ritarinn var sonur Rúnars, Hinrik Hugi.
Það er kannski fulllangt gengið að tala um Mosfellsbæ sem úthverfi Skagafjarðar en einhverjir hafa talað um Mosó sem útibú Skagafjarðar á höfuðborgarsvæðinu. Svona til að færa á það sönnur þá má nefna að fjórir Skagfirðingar eru í stjórn körfuknattleiksdeildar Aftureldingar. Þar er Ingvar Ormars einmitt formaður en auk hans eru þeir Heiðar Logi, Hrannar Jóhanns og Árni Geir Valgeirs í stjórn.
Fyrir áhugasama þá endaði leikurinn 22-21 fyrir heimaliðið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.