Miklu stærra en Icesave-málið | Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Hjörtur J. Guðmundsson.MYND AÐSEND
Hjörtur J. Guðmundsson.MYND AÐSEND

Málið sem kennt er við bókun 35 við EES-samninginn er í raun miklu stærra en bæði Icesave-málið og málið varðandi þriðja orkupakka Evrópusambandsins. Miklir fjárhagslegir hagsmunir voru í húfi í Icesave-málinu sem snerist þó einungis um eina tiltekna lagagerð sambandsins. Tilskipun þess um innistæðutryggingar. Þriðji orkupakkinn varðar að sama skapi mikla hagsmuni í orkumálum en snýst þó að sama skapi um afmarkað regluverk.

Frumvarp Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, utanríkisráðherra og formanns Viðreisnar, um bókun 35 varðar hins vegar allt regluverk frá Evrópusambandinu sem hefur verið og mun verða tekið upp hér á landi í gegnum EES-samninginn og gerir hana í reynd æðri almennum innlendum lögum. Þar á meðal er um að ræða allt regluverk sem tekið hefur verið og verður tekið upp upp frá sambandinu í framtíðinni varðandi bæði innistæðutryggingar og orkumál.

Verði frumvarp Þorgerðar að lögum verður til ný forgangsregla í íslenzkum rétti. Ólíkt þeim forgangsreglum sem þegar eru fyrir hendi hér á landi þegar almenn lagasetning er annars vegar, þar sem yngri lög ganga fyrir þeim sem eldri eru og sértækari lög fyrir almennari, mun nýja reglan miðast við það eitt og aðeins eitt að um sé að ræða innleiðingu á regluverki frá Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn og í raun fara þvert á hinar.

Versta mögulega staðan sem gæti komið upp, næði frumvarp Þorgerðar ekki fram að ganga og málið færi í kjölfarið mögulega fyrir EFTA-dómstólinn, væri sú að komizt yrði að þeirri niðurstöðu að fara bæri að kröfu Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um forgang innleidds regluverks frá Evrópusambandinu. Með öðrum orðum það sem frumvarpið felur í sér! Um fyrirfram uppgjöf er að ræða án þess að látið sé í það minnsta reyna á málið fyrst fyrir dómi.

Dómstólaleiðin þýddi að möguleiki væri á því að dæmt yrði okkur í vil. Sá möguleiki er hins vegar að engu gerður með því að gefast upp fyrir fram eins og til stendur með frumvarpinu. Ef það uppfyllti ekki kröfur ESA myndi það eðli málsins samkvæmt kalla á frekari aðgerðir af hálfu stofnunarinnar þar til sú yrði raunin. Tal um að frumvarpið sé hugsað til þess að tryggja að íslenzk stjórnvöld hafi forræði á málinu stenzt þannig alls enga skoðun.

Hjörtur J. Guðmundsson

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir