Varð háð hágæða garni
feykir.is
Skagafjörður, Mannlíf, Fréttir
15.10.2023
kl. 10.00
Helgarut Hjartardóttir er fædd árið 1991 á Sauðárkróki móðir tveggja barna, þeirra Alexíu Nóttar og Baltasars Loka. Hún kemur úr stórum systkinahópi og er viss um að einhverjir kannist við hópinn af Jólamóti Molduxa sem haldið er ár hvert á annan í jólum en þau taka alltaf þátt í því. Helgarut er útskrifuð með BA í sálfræði og stefnir á að fara í klíníska barnasálfræði í náinni framtíð. „Mér finnst mjög mikilvægt að við séum við sjálf og að það sé jákvætt að við séum ekki öll eins. Ein fræg setning sem ég segi oft er „við erum öll skrítin á okkar hátt”. Ekkert skemmtilegra en að fá að vera maður sjálfur en ekki vera fastur í því að reyna að passa inn í einhverja fyrirfram ákveðna staðalímynd. Vil ég því reyna að efla börnin okkar og aðra í því að vera þau sjálf og vera stolt af því“. Helgarut kemst á flug þegar hún byrjar að tala um tilfinningar og heldur því fram að viðtalið gæti tekið aðra og lengri stefnu ef við ætlum að fara inn á þá braut en bætir því við að það sé ekki sjálfgefið að maður fái þá aðstoð sem maður þarf í uppvextinum til að læra inn á tilfinningarnar.
Meira