Græni salurinn reyndist frábær kvöldstund
Það var eðalstemning í Bifröst síðastliðið föstudagskvöld þegar breiður hópur skagfirsks tónlistarfólks steig á marrandi sviðið og gerði heiðarlega tilraun til að lyfta þakinu af gamla kofanum á tónleikunum Græni salurinn. Tíu grúbbur mættu til leiks og sumt listafólkið í mörgum eins og vill verða þegar múltítalentar leiða saman hesta sína. Feykir heyrði hljóðið í þremur köppum að tónleikum loknum og fékk lánaðar nokkrar myndir.
„Þetta var alger veisla,“ sagði kampakátur Guðbrandur Ægir tónleikahaldari þegar hann var inntur eftir því hvernig til hefði tekist. „Frábær mæting, rúmlega fullt hús. Fullt af frábærum atriðum. Reynir Snær heillaði alla upp úr skónum með frábærum gítarleik sem og Sigvaldi. Úlfar Ingi var geggjaður á bassann að vanda og Fúsi Ben frábær á trommurnar,“ sagði Ægir sem tók reyndar fram að hann hefði ekki séð öll atriðin. „Ekki má gleyma Status sem stóðu sig frábærlega en þeir yfirgáfu sviðið undir miklu lófaklappi,“ bætti hann við.
Kannski eru ekki margir sem kveikja á Status en áreiðanlegar heimildir Feykis segja bandið skipað svona: Steinn Leó frá Geitagerði lék á bassa, Pétur Stefáns í Víðidal söng, Magnús Sigmundsson Vindheimum söng og spilaði á gítar og Indriði Jósafatsson frá Húsey á hljómborð. Fúsi Ben var á trommunum.
Mixermeistarinn Sibbi (Sigurbjörn Björnsson húsvörður í Bifröst og bíóhaldari með meiru) var afar dipló þegar Feykir spurði hann hvað hefði heillað, vildi meina að hann verið á mixernum allan daginn og orðinn samdauna öllu. „En frábær kvöldstund, margir magnaðir tónlistarmenn sem við eigum, Uncle Blues var geggjað að mínu mati en allir flottir.“ Feykir plataði Sibba síðan til að lána sér nokkrar myndir sem hann hafði símtekið af mixerborðinu og þær má skoða hér að neðan.
Komd' í partý!
Pilli Prakkó var að sjálfsögðu mættur til leiks með sitt rammþétta sex manna tríó sem stóð rúmlega fyrir sínu. Feykir spurði Pilla bvað hefði heillað hann helst. „Það sem mér þótti skemmtilegast var að sjá drengina í Status troða upp eftir áratuga hlé, annars er erfitt að gera upp á milli atriða. Hótel California er eftirminnilegt en þar þöndu þeir gítarana Reynir Snær og Sigvaldi meistaralega og Jakob Gunnars strauk bassastrenguna af stakri snilld. Einnig sýndu frændurnir, téður Reynir Snær og Úlfar Haraldsson, doktor í einhvers konar tónfræðum, frábæra takta. Margt annað væri hægt að tína til en þetta stóð upp úr að mínu mati,“ svaraði Pilli en það var einmitt Tríó Pilla Prakkó sem hnýtti endahnútinn á veisluna. Þá skelltu þeir í Komdu í partý (Ég var að rúnta á ræfilslegum Ford 57) ásamt öllum sem þátt tóku í Græna salnum og þá varð alvöru stuð.
Í lokin má geta þess að sérlegur stuðningsmaður Græna salarins, Helgi Gunn, var heiðursgestur kvöldsiins.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.