Stærsta gjöf í sögu Skagfirðingasveitar | Hafdís Einarsdóttir skrifar
Á laugardaginn fáum við í Skagfirðingasveit rausnarlegustu gjöf í sögu björgunarsveitarinnar afhenta. Flestir hér í Skagafirði þekkja væntanlega raunasöguna um það hvernig nýjum og fullkomnum björgunarbáti sem við höfðum keypt og greitt fyrir var að stórum hluta til beinlínis stolið af okkur. Báturinn var því aldrei smíðaður og hátt í tíu milljónir króna sem við höfðum safnað fóru í súginn. Færri vita e.t.v. að FISK Seafood, sem styrkt hafði kaupin með umtalsverðum hætti ákvað að bæta okkur skaðann með því að fjármagna að fullu nýjan og jafnvel enn fullkomnari björgunarbát. Andvirði bátsins, sem hlotið hefur nafnið Aldan, er um 20 milljónir króna og þarf kannski ekki að taka það fram að þessi gjöf er sú langstærsta sem Skagfirðingasveit hefur nokkru sinni veitt viðtöku.
Það er dýrt að reka björgunarsveit og þess vegna er hverjum peningi á útgjaldahliðinni velt margsinnis. Við greiðum t.d. um 500.000 krónur - hálfa milljón – í hverjum mánuði í tryggingar, fjarskiptagjöld, hita, rafmagn og annan álíka fastan kostnað. Meira en tveir þriðju hlutar af allri vinnu sjálfboðaliða fer í viðhald á tækjum, búnaði og húsnæði auk fjáraflana.
Þetta er mikill rekstur og við réðumst í sérstaka úttekt og þarfagreiningu fyrir nokkrum árum til þess að átta okkur betur á því hverjir væru styrkleikar okkar og veikleikar. Í ljós kom að flest útköll á svæðinu voru vegna fastra bíla í erfiðri færð. Þau næstflestu voru á sjó. Í þau höfðum við farið aftur og aftur á lítilli gúmmítuðru og oftast í veðri sem var hvorki báti némönnum bjóðandi. Við björguðum samt tveimur mannslífum en það var ljóst að þörf væri á öflugri báti hjá Skagfirðingasveit til að auka öryggi sjófarenda í Skagafirði.
Eftir svikin í kaupferli nýs björgunarbáts var ljóst að við vorum komin aftur á byrjunarreit og óneitanlega vorum við bæði lúin og ráðþrota. Það var þess vegna kannski ekki hátt risið á okkur þegar við mættum á fund Friðbjörns Ásbjörnssonar og samstarfsfólks hans hjá FISK Seafood til þess að tilkynna þeim um stöðu mála. Það var hins vegar ekki langt liðið á fundinn þegar Friðbjörn leit á samstarfsfólk sitt og sagði „við verðum bara að klára þetta.“ Skömmu seinna lýsti hann því yfir að að FISK Seafood myndi borga tjónið að fullu ef á þyrfti að halda.
Vart þarf að lýsa því hve mikill léttir fylgdi þeim orðum fyrir okkur. Og við þau hefur félagið staðið að fullu. Þess vegna, ásamt endalausri þrautseigju félaga okkar í Skagfirðingasveit, er Aldan komin skuldlaus til hafnar hér á Sauðárkróki, reiðubúin í hver þau verkefni sem neyð kallar á bæði til sjávar og viðsjárverðra vatna hér á svæðinu. Öryggi sjófarenda og báta á vötnum Skagafjarðar hefur aukist til mikilla muna. Þætti FISK Seafood í þeim stóra áfanga verður aldrei gleymt.
Í tilefni af því að björgunarbáturinn Aldan er komin í höfn bjóðum við öllum velunnurum Skagfirðingasveitar til afhendingarathafnar næstkomandi laugardag, 15. mars, klukkan 13:00. Við vonum að þar verði góð mæting. Tilefnið skiptir okkur öll miklu máli.
Hafdís Einarsdóttir,
formaður Skagfirðingasveitar og Björn Sigurður Jónsson, varaformaður.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.