„Ég er gríðarlega ánægður með leikinn i heild sinni. Þetta var frábær frammistaða bæði varnar - og sóknarlega. Geggjað að skora frábær fjögur mörk og hefðum getað skorað aðeins fleiri,“ sagði markagráðugur Donni þjálfari þegar Feykir hafði samband við hann að loknum leik Tindastóls og ÍBV í Bestu deild kvenna í gær. Leikurinn endaði með 4-1 sigri Stólastúlkna og færði liðið ofar í töfluna.
Það kom fram í umfjöllun um leik Tindastóls og ÍBV í dag að Murielle Tiernan, eða bara Murr upp á grjótharða íslensku, var heiðruð áður en leikurinn hófst en hún náði fyrir nokkru þeim áfanga að hafa spilað 100 leiki fyrir Stólastúlkur í deild og bikar. Það eru um sex ár frá því að hún gekk fyrst til liðs við Tindastól sem þá var í 2. deild en með tilkomu hennar og uppkomu metnaðarfullra og stoltra Stólastúlkna í meistaraflokk hófst ótrúlegur uppgangur kvennaboltans á Króknum. Feykir sendi nokkrar spurningar á Murr.
Hún var mögnuð knattspyrnuhelgin á Norðurlandi vestra. Bæði meistaraflokkslið Tindastóls unnu mikilvæga leiki og á Blönduósi bætti stolt Húnvetninga, lið Kormáks/Hvatar, enn stöðu sína í toppbaráttu 3. deildar. Í dag mættu þeir liði ÍH úr Hafnarfirði og þó einhverjir gætu sagt að þetta hafi verið skildusigur þá geta slíkir leikir reynst bananahýði. Húnvetningum skrikaði þó ekki fótur í leiknum og fóru létt með ÍH-inga og unnu 5-0 sigur.
Það var einn leikur í Bestu deild kvenna þessa helgina og hann var spilaður á Króknum í dag. Þá tóku Stólastúlkur á móti liði ÍBV úr Eyjum í því sem má kalla sex stiga leik, liðin bæði að berjast fyrir tilverurétti sínum í efstu deild. Tvær splunkunýjar spænskar stúlkur léku sinn fyrsta leik fyrir heimastúlkur og það var ekki annað að sjá í dag en að þar færu klassaspilarar. Þó það gangi hægt hjá Murr að komast í 100 mörkin fyrir Stólastúlkur þá átti hún skínandi leik í dag og lagði í raun upp öll fjögur mörk liðsins í skemmtilegum og vel spiluðum leik. Lokatölur 4-1 og Stólastúlkur færðust úr níunda sæti í það sjöunda.
Karlalið Tindastóls var í eldlínunni í 4. deildinni í dag þegar strákarnir tóku á móti toppliði deildarinnar, Vængjum Júpíters, á Sauðárkróksvelli. Fyrir leik voru Stólarnir hins vegar í fjórða sæti deildarinnar og þurftu nauðsynlega að næla í sigur til að koma sér betur fyrir í toppbaráttu deildarinnar. Það hafðist og var sigurinn nokkuð öruggur. Lokatölur að loknum skemmtilegum leik voru 3-1.
Nú á vordögum fékk lið Kormáks/Hvatar liðsstyrk þegar reyndur serbneskur leikmaður tók stöðu milli stanganna í marki Húnvetninga. Um var að ræða Uros Djuric, 29 ára gamlan fyrrverandi atvinnumann í knattspyrnu sem hefur spilað í sterkum deildum í Austur-Evrópu. Það hefur líka komið í ljós að hann kann ýmsilegt fyrir sér í markmannsstöðunni og kappinn því happafengur fyrir Húnvetninga.
Árlegt meistaramót fullorðinna hjá Golfklúbb Skagafjarðar var haldið dagana 5. – 8. júlí. Keppt var í fimm mismunandi flokkum og tóku 43 klúbbmeðlimir þátt.
Fram undan er Unglingalandsmót á Sauðárkróki þar sem mestu máli skiptir að vera með, taka þátt og prófa eitthvað nýtt. Unglingalandsmótið á Sauðárkróki er frábært tækifæri og vettvangur fyrir ungmenni á aldrinum 11-18 ára til þess að velja á milli fjölda íþróttagreina og afþreyingar í heimabyggð.
Á fallegu þriðjudagskvöldi var Ærsladraugurinn eftir Noel Coward sýndur í Höfðaborg í uppsetningu Leikfélags Hofsóss undir leikstjórn Barkar Gunnars-sonar. Glaðvært miðasölufólk tók á móti leikhúsgestum og kátt sjoppustarfsfólk seldi ískaldar guðaveigar fyrir sýningu.
Málið sem kennt er við bókun 35 við EES-samninginn er í raun miklu stærra en bæði Icesave-málið og málið varðandi þriðja orkupakka Evrópusambandsins. Miklir fjárhagslegir hagsmunir voru í húfi í Icesave-málinu sem snerist þó einungis um eina tiltekna lagagerð sambandsins. Tilskipun þess um innistæðutryggingar. Þriðji orkupakkinn varðar að sama skapi mikla hagsmuni í orkumálum en snýst þó að sama skapi um afmarkað regluverk.
Baula þær enn beljurnar á Bjarnastöðum er fyrirsögn sem hr. Hundfull skrifaði árið 2013 þegar þriggja daga átveislan byrjaði það árið, þ.e. bolludagur, sprengidagur og öskudagur. Eftir að hafa lesið þessa fínu hugleiðingu hans er við hæfi að endurbirta hana því það eru eflaust margir sammála honum í þetta skiptið!