Harry Potter og Anna í Grænuhlíð í miklu uppáhaldi
Helga Gunnarsdóttir, kennari á Skagaströnd, svaraði spurningum í Bók-haldinu í páskablaði Feykis árið 2017. Helga bjó í Kaupmannahöfn fyrstu sjö árin en síðan á Hvanneyri og Selfossi þar til hún flutti að Akri í Austur-Húnavatnssýslu þar sem foreldrar hennar búa nú. Helga hefur gaman af ýmiss konar bókum, ekki síst ævintýrabókum, og tekur oft miklu ástfóstri við persónur þeirra.
Hvers konar bækur lestu helst?
Ég les að mestu bækur eftir Jane Austin, ævintýrabækur, unglingabækur og ástasögur mér til skemmtunar en starfsins vegna les ég líka hinar ýmsu námsbækur sem og fræðigreinar og -bækur hvers konar.
Hvaða bækur voru í uppáhaldi hjá þér þegar þú varst barn?
Bækur eftir Astrid Lindgren, sagan af Heiðu í fjöllunum, Anna í Grænuhlíð, Pollýanna, Ævintýrabækurnar og bækur eftir Þorgrím Þráinsson voru í mestu uppáhaldi í þá daga.
Hver er uppáhaldsbókin af þeim sem þú hefur lesið gegnum tíðina?
Ég elska bækur sem eru langar og/eða hafa framhald. Ég á nefnilega mjög erfitt með að segja bless við söguhetjur bókanna. Harry Potter bókaflokkurinn og flokkurinn um Önnu í Grænuhlíð (sem hefur að vísu ekki enn komið allur út á íslensku en það er í vinnslu) eru þar í mestu uppáhaldi. Þetta eru bækur sem ég hef ekki tölu á hversu oft ég hef lesið og ég get alltaf lesið aftur og aftur. Ég verð að vísu ekki mjög félagslynd þá daga og þess vegna þarf ég að haga lestrinum þannig að ég geti gleymt mér í marga klukkutíma yfir bókalestri. Eins eru bækurnar hennar Jane Austin líka í miklu uppáhaldi, þrátt fyrir að þær eigi ekki framhald. En þær búa yfir svo ríkum söguþræði, bæði skrifuðum sem og á milli línanna, að það er alltaf hægt að sjá nýjar hliðar við hvern lestur.
Hver er þinn uppáhaldsrithöfundur/ rithöfundar og hvers vegna?
J.K. Rowling, Astrid Lindgren, Lucy Maud Montgomery og Jane Austin eru í mestu uppáhaldi. Allar eiga þær það sameiginlegt að hafa skrifað bækur sem ég hef á einhverjum tímapunkti í mínu lífi fallið alfarið fyrir. Þetta eru allt bækur sem ég hef lesið aftur og aftur frá deginum sem ég féll fyrir þeim fyrst og þær hafa það fram yfir margar bækur að þær verða aldrei leiðinlegar eða úreltar. Það skemmtilega við bækurnar er líka að maður sér alltaf eitthvað nýtt því þessir höfundar eru allir góðir í því að skrifa söguþráð bæði þann sem er skrifaður í bókina sem og söguþráðinn sem er hvergi skrifaður í hana. Ekki skemmir heldur hvað þessar bækur innihalda mikinn húmor.
Hvaða bók/ bækur er/eru á náttborðinu hjá þér þessa dagana?
Ég er með nýjustu bókina af Harry Potter, Harry Potter og bölvun barnsins. Þá bók hef ég verið með á náttborðinu frá því um jólin því ég reiddist svo við Harry Potter að ég gat ekki lesið áfram, spurning hvenær reiðin rennur af nógu mikið af mér svo ég geti lesið lengra. Ég er svo líka með eina Rauða seríubók, ég man ekki hvað hún heitir enda skilja þær bækur venjulega lítið eftir nema bara ánægjuna að lesa.
Ertu fastagestur á einhverju bókasafni?
Ég er ekki eins dugleg að sækja bókasöfn í dag eins og ég var þegar ég var barn og ungingur.
Áttu þér uppáhaldsbókabúð (hér heima eða erlendis)?
Eymdunsson er í mestu uppáhaldi hér heima. Erlendis á ég ekki neina eina, en finnst alltaf gaman að fara og skoða bókabúðir.
Hvað áttu margar bækur í bókahillunum heima hjá þér?
Ég hef fyrir löngu týnt tölunni á bókunum sem ég á.
Hvað kaupirðu eða eignast að jafnaði margar nýjar bækur yfir árið?
Ég fær að meðaltali svona tvær til fjórar á ári.
Eru ákveðnir höfundar/bækur sem þú færð „alltaf“ í jólagjöf?
Núna efir að Sigríður Lára Sigurjónsdóttir fór að þýða bækurnar um hana Önnu í Grænuhlíð upp á nýtt hef ég alltaf fengið eintak af nýjustu bókinni. Ég varð akkúrat mjög svekkt núna þegar ég fletti Bókatíðindum fyrir síðustu jól því þá hefði fimmta bókin átt að koma út en eitthvað hefur væntanlega komið uppá í þýðingarferlinu. Ég vonast því eftir henni um næstu jól.
Er einhver bók sem hefur sérstakt gildi fyrir þig?
Ég á Dagbók Önnu Frank sem langamma mín átti á sínum tíma, sú bók er að mínu mati mjög sérstök. Annars elska ég bækur þannig að það eru fáar bækur sem ég á sem hafa ekki neitt tilfinningalegt gildi fyrir mig.
Hefur þú heimsótt staði sem tengjast bókum eða rithöfundum þegar þú ferðast um landið eða erlendis?
Ég get ekki sagt það. Ég hef jú farið á slóðir margra bóka hér á landi en það var aldrei vegna bókarinnar. Annars er það draumur minn að fara einhvern tíman í Harry Potter göngu þegar ég heimsæki London. Ég er líka mjög spennt fyrir Astrid Lindgren garðinum í Svíþjóð og mun hugsanlega heimsækja hann í fyrsta sinn núna í sumar. Eins langar mig mikið að heimsækja Prins Eðvaldsey í Kanada, en það er eyjan þar sem Anna Shirley (í Grænuhlíð) átti að hafa átt heima.
Ef þú ættir að gefa einhverjum sem þér þykir vænt um bók, hvaða bók yrði þá fyrir valinu?
Það fer allt eftir áhugamálum þess sem á að fá bókina. Ég gef venjulega foreldrum mínum bók í jólagjöf, þá fær pabbi einhverja glæpasögu en mamma skáldsögu í líkingu við Flugdrekahlauparann, hvorugt eru bækur sem ég hef lesið en ég veit að þau hafa gaman af. Síðast þegar ég keypti bók handa frændsystkini var það fótboltabók eftir Gunnar Helgasson, ég hef mikið keypt bækur eftir hann þegar ég hef verið að gefa frændsystkinum mínum gjafir.
Og í lokin tvær spurningar sem tengjast fermingarárunum:
Manstu eftir einhverjum bókum sem þú fékkst í fermingargjöf?
Í fermingargjöf fékk ég Afmælisdagabók og Draumráðningabók, hvor tveggja bækur sem ég hafði óskað mér mikið. Á þeim árum var Facebook náttúrulega ekki til þannig að svona Afmælisdagabækur voru þarfaþing að mati margra og þar á meðal mín. Ég verð nú að viðurkenna að ég hef nú ekki mikið notað þá bók í mörg ár en Draumráðningabókin er alltaf notuð reglulega.
Hvaða bækur lastu helst þegar þú varst á fermingaraldri?
Á árunum í kringum fermingu átti bókaflokkurinn Tár, bros og takkaskór, eftir Þorgrím Þráinsson hug minn allann. Bækurnar í þeim bókaflokki eru þrjár og fjalla þær um vinina Kidda, Tryggva og Skapta, líf þeirra, ástir og sorgir. Ég las þær oftast allar þrjár í röð þrisvar yfir árið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.