Arnar Geir vann Opna jólamót PKS

Sigurvegarinn Arnar Geir ásamt Mike og Brynjari Snæ. Mynd tekin af Facebook-síðu PKS.
Sigurvegarinn Arnar Geir ásamt Mike og Brynjari Snæ. Mynd tekin af Facebook-síðu PKS.
Opna Jólamót Pílukastfélags Skagafjarðar og FISK Seafood fór fram föstudaginn 27. desember 2024 og er þetta í þriðja skiptið sem þetta mót er haldið. Alls tóku 32 keppendur þátt og var keppnisfyrirkomulagið 501. Keppt var í átta fjögurra manna riðlum og að þeim loknum var farið í útslátt þannig að tveir efstu í öllum riðlum fóru í A útslátt og hinir tveir neðstu í B útslátt (forsetabikar). Mótið gekk ljómandi vel fyrir sig og voru margir hörkuleikir.
 
Úrslitin urðu að lokum þau að í A-úrslitum og þar með sigurvegari mótsins var Arnar Geir Hjartarson. Arnar Geir vann Mike Reinhold í svakalegum úrslitaleik 5/4 þar sem báðir voru að spila frábæra pílu og úrslitaleggurinn hjá þeim báðum var upp á 80 í meðaltali. Í þriðja sæti var síðan Brynjar Snær Halldórsson en hann vann Þröst Kárason. Í B-úrslitum vann Hlynur Freyr Einarsson nafna sinn Hlyn Hallbjörnsson um fyrsta sætið. Í þriðja sæti varð síðan Einar Gíslason er hann vann Fannar Örn Kolbeinsson. Þá voru einnig veitt verðlaun fyrir fyrstu 180 mótsins og það var Júlíus Helgi Bjarnason sem náði því strax í annarri heimsókn í fyrsta leik. Hæsta útskot mótsins átti Heiðar Örn Stefánsson en það var upp á 111 stig.
 
Gaman er að segja frá því að nýlega fagnaði Pílukastfélag Skagafjarðar 2ja ára afmæli sínu en stofndagurinn var þann 16. desember 2022. Á þessum stutta tíma hefur félagið vaxið og dafnað og er mikill áhugi á íþróttinni í héraðinu. Á þessum tíma hefur félagið notið mikillar velvildar í samfélaginu og fjöldi fyrirtækja og einstaklinga hafa lagt starfinu lið. Framtíðin er björt. Áfram PKS.
 
 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir