Aðsend Jólasaga - „Anna litla og tuskudúkka“ | Rúnar Kristjánsson

Anna litla sat úti í einu horninu á litlu lóðinni kringum húsið og lék sér með tuskudúkkuna sína. Það var sólskin og blíða og hún var þarna ein að dunda sér. Henni fannst svo mikils virði að fá að vera í friði með sín hugðarefni. Það var svo sjaldan hægt að fá frið, því systkinin voru mörg og oft svo hávaðasamt á heimilinu. Eldri bræður hennar þóttust orðnir heilmiklir karlar og litu á hana sem smábarn og stóra systir gat stundum verið svo mikil skessa við hana. Önnu litlu fannst hún oft vera ein í heiminum. Það var eins og enginn skildi hana eða vildi gefa sér tíma til að sinna henni.

Það var helst hægt að leita til pabba þegar hann kom heim úr vinnunni, en þá var hann bara svo þreyttur og þurfti að hvíla sig. En hún mátti samt alltaf skríða upp í fangið á honum með tuskudúkkuna sína. Þá lagði hún hendurnar um hálsinn á honum og kinnina við hrjúfan vangann. Og þá strauk hann yfir kollinn á telpunni sinni og sagði eitthvað fallegt við hana. Pabbi var alltaf bestur !

En henni fannst það vont hvað hann þurfti hræðilega mikið að vinna. Hann var svo lítið heima, var farinn í vinnuna þegar hún kom á fætur og oftast komið fram á kvöld þegar hann kom heim. Og þá var hann svo þreyttur.

Mamma þurfti líka mikið að vinna því það þurfti að gera svo mikið á heimilinu, elda matinn, þrífa og þvo, gera við föt, líta eftir börnunum og margt, margt fleira. Og mamma gerði þetta allt, en hún var svo oft að skammast og virtist svo sjaldan í góðu skapi. Önnu litlu fannst hún ekki geta átt svo mikið athvarf hjá henni. Hún gat ekki skriðið upp í fangið á mömmu, því mamma var alltaf á ferð og flugi, hún sat aldrei kyrr stundinni lengur.

Og vegna þessara aðstæðna reyndi Anna litla að vera sem mest út af fyrir sig. Hún dundaði með tuskudúkkuna sína, meðan aðrar telpur á hennar aldri léku sér margar hverjar að fínum dúkkum, keyptum úr búð.

En það er ekki víst að þeim hafi þótt vænna um sínar dúkkur en Önnu litlu um tuskudúkkuna sína. Þar var nefnilega umhyggjan alveg sérstök.

En samt kom það fyrir að aðrar telpur gerðu lítið úr dúkkunni hennar og þá fann Anna litla sárt til þess að dúkkan hennar var ekki eins prinsessuleg og hinar dúkkurnar. Hún var eiginlega miklu fremur einhverskonar Öskubusku-dúkka.

Anna litla þekkti söguna um Öskubusku og vissi að hún varð að lokum prinsessa, þó fátt benti til þess í upphafi, og hún hugsaði með sér að dúkkan hennar væri í rauninni líka prinsessa, þó að hún bæri það ekki utan á sér. Hún væri bara í álögum um tíma og yrði það þangað til prinsinn hennar kæmi og frelsaði hana. Og með því að nota ímyndunaraflið á þennan hátt gat Anna litla fullvissað sjálfa sig um það að tuskudúkkan hennar væri í raun og veru fallegasta og besta dúkkan í öllum heiminum. Það vissi það bara enginn nema hún.

Hún ein þekkti þetta Öskubusku-leyndarmál dúkkunnar. Það var vel geymt hjá henni og hún vafði að sér tuskudúkkuna sína og var alsæl með hana.

Það vantaði ekki að Anna litla reyndi að gera það besta úr aðstæðunum, og að henni þótti undra vænt um það sem öðrum fannst líkast til að væri ekki mikils virði, þessa dúkku. En tuskudúkkan hennar Önnu litlu gegndi sínu hlutverki í lífi litlu stúlkunnar  sem átti hana og það hlutverk var hreint ekki svo lítið. Hún fyllti nefnilega upp í margt sem annars hefði bara verið tóm í lífi Önnu litlu.

Það þarf oft ekki mikið til að hugga og gleðja einmana barnssál. En tíminn leið og bernskan þar með og að því kom að leiðir Önnu litlu og tuskudúkkunnar skildu. Og þá var það bara eðlilegt og sársaukalaust. Og svo kom auðvitað líka að því að Anna litla hætti að vera Anna litla, því æsku og unglingsár tóku við af bernskunni og lögðu sín áhrif inn í líf hennar.

Og það breyttist svo margt undarlega hratt þegar hún fór að nálgast veröld hinna fullorðnu. Það var eiginlega bæði spennandi mál og um leið dálítið óttalegt líka. En kannski var ekki meira um það að segja.

En löngu síðar, þegar stúlkan sem hafði eitt sinn verið Anna litla var orðin fullorðin og ráðsett kona, kom það fyrir annað slagið, að hugur hennar leitaði til bernskuáranna og þá var það ein ljúfasta endurminningin, að muna hvað henni hafði alltaf þótt það yndislegt að fá að leika sér með tuskudúkkuna sína og kúra með hana í fanginu á honum pabba, því hann var alltaf bestur!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir