Eggjaquesadilla og skyrkaka | Matgæðingar Feykis
Matgæðingar vikunnar í tbl 36, 2023, voru Guðlaugur Skúlason, fæddur og uppalinn á Sauðárkróki, og Sigrún Ólafsdóttir, fædd og uppalin á Krithóli. Guðlaugur starfar í dag hjá SSNV en Sigrún er útibússtjóri hjá Arion banka á Sauðárkróki. Þau hafa búið á Króknum síðan 2016 og eiga saman tvö börn, Darra fæddan 2017, og Dagnýju fædda 2020.
Guðlaugur sér að mestum hluta um eldamennskuna á heimilinu en þegar kemur að bakstri og eftirréttum er Sigrún á heimavelli enda er Guðlaugur slumpari en Sigrún meira fyrir mælieiningarnar. „Uppáhaldsréttirnir okkar eru einfaldir og þægilegir því við verðum að vera örugg með að krakkarnir borði þá. Ekki verra að geta tekið aðeins til í ísskápnum í leiðinni og lauma smá grænmeti í matinn. Við ákváðum því að koma með einn barnvænan rétt frá Guðlaugi og einn klassískan eftirrétt frá mér – verði ykkur að góðu,“ segir Sigrún.
RÉTTUR 1
Eggjaquesadilla
6 stk stór egg
2 miðlungsstórar tortillur
rifinn ostur
kjötmeti úr ísskápnum (beikon, skinka, pepperoni)
grænmeti
salt og pipar eða önnur krydd að eigin vali.
smjör
Aðferð: Pískið eggin saman. Skerið niður grænmeti og kjöt. Gott að steikja kjötið aðeins á undan. Smjör sett á pönnu, eggjunum hellt út á pönnuna, kryddað og niðurskornu kjöti og grænmeti dreift yfir. Tortillakakan sett ofan á. Látið malla á pönnunni þar til eggið losnar frá. Kökunni snúið við á pönnunni og rifnum osti dreift yfir. Eftir 1-2 mínútur er kökunni lokað í hálfmána. Quesadillan tekin af pönnunni og skorin í þríhyrninga, borin fram með þeirri sósu sem manni þykir best.
RÉTTUR 2
Skyrkaka
Botninn:
1 pakki LU kanil kex
120 g brætt smjör
Aðferð: Kexið sett í matvinnsluvél eða mulið smátt á annan hátt. Hef oft nýtt mér poka og kökukefli. Smjöri bætt við. Þrýstið blöndunni í form og kælið meðan fyllingin er gerð.
Fylling:
500 g Cremé brulée skyr
500 ml. rjómi
2 msk. flórsykur
1 poki hvítt súkkulaði (150 g)
Aðferð: Rjóminn þeyttur og látinn bíða. Súkkulaðið brætt í vatnsbaði. Flórsykrinum blandað við skyrið. Súkkulaðinu blandað við. Rjómanum hrært saman við í nokkrum skömmtum. Fyllingin sett á botninn. Kakan sett í kæli í nokkra tíma eða yfir nótt.
Verði ykkur að góðu!
Þau skoruðu á Söndru Hilmarsdóttur og Birki Fannar Gunnlaugsson að koma með uppskriftir.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.