Jólablakmót á Blönduósi milli jóla og nýárs

Sigurvegarar mótsins. Mynd tekin af huni.is
Sigurvegarar mótsins. Mynd tekin af huni.is

Á huni.is segir að í vetur hefur verið mikið um að vera í Íþróttamiðstöðinni á Blönduósi þar sem fjölmennur hópur fólks hittist tvisvar í viku og spili blak sér til skemmtunar. Má jafnvel tala um að hér sé um hreint „blakæði“ að ræða. Í kjölfar þessa mikla blakáhuga ákváðu þau Ólafur Sigfús Benediktsson og Jóhanna Björk Auðunsdóttir, íþróttakennarar við Húnaskóla, að blása til blakmóts sem haldið var á milli jóla og nýárs; “Jólablakmót meistaranna 2024”.

Um var að ræða styrktarmót til styrktar Þorsteini Elfari Hróbjartssyni og fjölskyldu hans, en móðir hans á ættir sínar að rekja til Blönduóss. Þorsteinn er sex ára gamall og greindist nýverið með hvítblæði og eru því krefjandi tímar framundan hjá honum og fjölskyldu hans.

Mótið gekk afar vel og var í alla staði mjög skemmtilegt, en það var einmitt tilgangur mótsins, þ.e. að hittast og skemmta sér í blaki. Glæsileg þátttaka var í mótinu en 12 lið skráðu sig til leiks og var leikið á þremur völlum samtímis. Sigurvegarar mótsins komu frá Hvammstanga en lið þeirra vann úrslitaleik við Græna herinn. Í þriðja sæti varð liðið Retro.

Í stuttu samtali við skipuleggjendur mótsins kom fram að þátttakana hafi farið fram úr björtustu vonum þeirra og vilja þau koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem þátt tóku.

 

 
 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir