Hanna og framleiða á stóla úr flotholtum - fimmti þáttur Fyrirmyndarfrumkvöðla
- Dags.: 13.11.2015
Í fimmta þætti Fyrirmyndarfrumkvöðla er rætt við Hólmfríði Ósmann Jónsdóttur arkitekt og Einar Daníel Karlsson smið. Þau eru að fara af stað með framleiðslu á stólalínu sem þau kalla Floating Fender Chair og þau hanna og smíða í samstarfi við Hrefnu Björg Þorsteinsdóttur arkitekt og Ágúst Þorbjörnsson málmsmið. Verkefnið Floating Fender Chair er sprottið úr samstarfi við veitingastaðinn Sjávarborg á Hvammstanga.
Í þættinum segja þau frá því hvernig hugmyndin að stólunum kviknaði þegar þau unnu saman að innréttingu veitingastaðarins en líkt og innviðir Sjávarborgar sækja stólarnir innblástur til hafsins og umhverfisins þar í kring. Þau deila með áhorfendum því langa og stranga ferli sem felst í að hanna og þróa nýja vöru, fá hönnunarvernd og fleira áður en hægt er að koma vörunni á markað.
Fyrirmyndarfrumkvöðlar er samstarfsverkefni Feykis og Skottu kvikmyndafjelags. Þáttagerðin er í höndum Árna Gunnarsson kvikmyndagerðarmanns, Berglindar Þorsteinsdóttur, ritstjóra Feykis og Kristínar Einarsdóttur, blaðamanns hjá Feyki. Þáttastjórnendur eru Berglind og Kristín en um upptökur og eftirvinnslu sér Árni Gunnarsson.