Vísnakeppni Safnahúss Skagfirðinga
Þátttakan var geysigóð í Vísnakeppni Safnahúss Skagfirðinga en úrslit voru kynnt á setningu Sæluviku sem fram fór um mánaðamótin síðustu. Eftirfarandi pistill var fluttur þar af því tilefni.
Ég vil trúa því að ekki sé haldin ærleg Sæluvika nema Vísnakeppni Safnahússins fylgi með, enda ennþá vinsæl meðal hagyrðinga. Telst undirrituðum til að nú sé komið að þeirri 43. en keppninni var komið á árið 1976.
Reglurnar eru líkt og áður einfaldar og góðar; annars vegar að botna fyrirfram gefna fyrriparta og eða semja vísu um ákveðið málefni.
Að þessu sinni var umsjónarmaður óvenju frjálslegur og leyfði fyrripartasmiðum að ráða efnistökum annars fyrripartsins en hörð fyrirmæli fengu þeir um að setja eitthvað saman sem viðkemur ferðamönnum og Skagafirði. Þá fékk að fljóta með auka fyrripartur sem snéri að komandi kosningum.
Frá því að ég tók við umsjón þessarar keppni hef ég getað leitað til sömu fyrripartasmiðanna þeirra Hreins Guðvarðarsonar og Haraldar Smára Haraldssonar og vil ég þakka þeim fyrir. Líklega hefur verið sæmilegt veður úti þegar þeir tóku sig til við yrkingar því vorið var þeim hugleikið í frjálsa valinu.
Hreinn kom með þessa parta:
Vetur hopar, vorið nær
völdum næstu daga.
og
Fjallahringur fagur hér
ferðalanga tælir.
En Smári þessa:
Vorið skilið vísu á
í veðurblíðu sinni.
Og:
Ekki virðist amalegt
yfir fjörð að líta.
Og í tilefni sveitarstjórnakosninga lét Smári þennan fyrripart fljóta með.
Kosningarnar koma brátt
með kosti sína og galla.
Þátttaka var allgóð þar sem 15 einstaklingar sendu inn efni, ýmist undir dulnefni nú eða ekki og var þeim þá úthlutað einu slíku áður en dómnefnd tæki til starfa.
Þar sem ég er fastheldinn maður, kallaði ég saman sömu dómnefndina og hefur fylgt mér hingað til en þar eru á ferðinni þau Guðbjörg Bjarnadóttir, íslenskukennari við FNV, og Ágúst Guðmundsson, trymbill og fasteignasali.
Þá er að stikla á stóru í botnum og vísunum sem bárust.
Steinfinnsson botnar:
Vetur hopar, vorið nær
völdum næstu daga
Vel þá fagur, völlur grær,
Víðast hvar á Skaga.
Hér er á ferðinni Magnús Geir Guðmundsson.
Pétur Stefánsson sem fékk dulnefnið Djarfur hefur það á þessa vegu:
Vetur hopar, vorið nær
völdum næstu daga.
Þessu fagnar þjóðin kær,
það er árviss saga.
Og Gráni átti líka fína vísu um sama efni. Gráni reyndist vera Reynir Hjörleifsson.
Vetur hopar, vorið nær
Völdum næstu daga.
unnan andar blíður blær
og blómin vaxa í haga.
Skefill segir þetta um vorið:
Vorið skilið vísu á
í veðurblíðu sinni.
Skulu fljóð og halir þá
hafa lengi í minni.
Hafsteinn Steinsson var á bak við dulnefnið Skefil.
Um ferðamennina hafði Vandamaður þetta að segja í sniðhentri ferskeytlu:
Fjallahringur fagur hér
ferðalanga tælir.
Skagfirðingur ætíð þver
aflar fanga en vælir.
Philip Vogler kallaði sig Vandamann.
Þegar hugsað er til ferðamanna og rímorðið líta, er margt sem kemur til greina eins og hvíta og hnýta en Alfreð Guðmundsson segir:
Ekki virðist amalegt
yfir fjörð að líta
Frómlegt yrði með frið og spekt
ef frjálsleg hjörð sést skíta.
Hafsteinn Reykjalín segir:
Fjalla hringur fagur hér
ferðalanga tælir,
ef skagfirsk hross á skeiði er
hann skref í gulli mælir.
Þegar kemur að kosningavísunni segir Brynjar Páll Rögnvaldsson eftirfarandi og fer frjálslega með bragreglurnar:
Kosningarnar koma brátt
með kosti sína og galla.
Sýndarveruleikagátt,
mun heilla konu og kalla.
Ekki hefur Golþorskur mikla trú á stjórnmálunum en hann lætur þetta hljóma svona:
Kosningarnar koma brátt
með kosti sína og galla.
Á eftir þeim er samin sátt
er svíkur nánast alla.
Um Sturlungakappa sem hugsanlega kæmu fram í nútímanum segir Andrés auðnulausi:
Komnir í Heimi kappar hans
kórinn að efla og styðja,
kyrja þar allir með elegans
annan bassa - og þriðja.
Andrés auðnulausi reyndist vera Björn Ingólfsson.
Suðri vísar í Flugumýrarbrennu og telur að Gissur jarl ætti varla upp á pallborðið hjá Skagfirðingum ef hann léti sjá sig nú. Suðri, eða Magnús Halldórsson lætur Gissur segja:
Ég bið um það í bænaskrá,
sem bragð við nýrri hrinu
að maður fái mysu hjá
mjólkursamlaginu.
Eiríkur Hansen, eða Garri, bendir á að staða Þórðar kakala sé önnur nú en áður.
Kakali sem kemur hér
kannar stöðu veika.
Nú gerist allt af sjálfu sér
í sýndarveruleika.
Og Gunnar Rögnvaldsson slær botninn í þessa umræðu með eftirfarandi hætti:
Hjá sagnfræðingum gremdist geð
en gleddist margur landi.
Ef Siggi Hansen sæist með
Sighvati og Brandi.
Eins og oft áður stóð nefndin í ströngu við að finna besta botninn og vísuna, en þetta stóð upp úr að hennar mati:
Besta botninn átti Gustur:
Vetur hopar vorið nær
völdum næstu daga.
Viður brumar völlur grær
vermir sólin haga.
Og Kakali þótti hafa gert bestu vísuna og gott betur því þær voru þrjár og mynduðu skemmtilega lýsingu á Þórði kakala.
Girtur sverði gengi hann um stræti
gullinn hjálmur þar á höfði sæti.
Kakali sér kynni ekki læti
karlinn myndi dansa ef hann gæti.
Inn til landsins fögru fjallasala
færi hann með okkur til að smala.
Kátur myndi konur einnig fala
kyssa heimasætur fram til dala.
Karlinn yrði eðal Skagfirðingur
ætíð væri þar sem Heimir syngur
Vart hann myndi hræðast glasa glingur
gjarna léki þá við hvern sinn fingur.
Verðlaunahöfundar Vísnakeppni Safnahúss Skagfirðinga 2018 eru annars vegar fyrir besta botninn, Ingólfur Ómar Ármannsson og bestu vísuna, eða öllu heldur vísurnar, Jón Gissurarson.
/Páll Friðriksson
Áður birst í 18. tbl. Feykis 2018
E.s. Þess má geta að Ingólfur Ómar gaf nýlega út ljóðabók, Stefjagróður, sem lesa má um HÉR.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.