Elísa Bríet er íþróttamaður ársins hjá USAH
Elísa Bríet Björnsdóttur, fótboltakona frá Skagaströnd, var í gær kjörin íþróttamaður ársins 2024 hjá Ungmennasambandi Austur-Húnvetninga. Kjörinu var lýst við hátíðlega athöfn í Félagsheimilinu á Blönduósi að viðstöddu fjölmenni. Elísa leikur með meistaraflokki Tindastóls. Hún gerði fyrr á árinu þriggja ára samning við félagið og hefur staðið sig frábærlega, segir á huni.is
Elísa hefur leikið 31 leik með meistaraflokki í A-deild og einn bikarleik og hefur skorað í þeim sex mörk. Húna var næstmarkahæsti leikmaður Tindastóls í ár og valin besti miðjumaður 20. umferðar Bestu deildarinnar í sumar. Einnig var hún valin efnilegasti leikmaður deildarinnar af vefnum fótbolti.net. Þá spilaði Elísa með U-17 ára landsliðinu í haust í Skotlandi í undankeppni Evrópumótsins 2025. Hún býr yfir miklum leikskilningi og er óhrædd við að láta til sín taka á vellinum. Elísa er einbeitt og ákveðin og er frábær fyrirmynd.
Í öðru sæti varð Birgitta Rún Finnbogadóttir frá Ungmennafélaginu Fram á Skagaströnd en hún er 16 ára gömul fótboltakona og spilar með meistaraflokki Tindastóls. Í þriðja sæti varð Guðmann Jónasson frá Skotfélaginu Markviss.
Tilnefnd voru auk Elísu, Birgittu og Guðmanns: Ásdís Brynja Jónsdóttir frá Hestamannafélaginu Neista, Elyass Kristin Bouanba frá Skotfélaginu Markviss, Ólíver Már Víðisson frá Ungmennafélagi Bólstaðarhlíðarhrepps og Samúel Ingi Jónsson frá Skotfélaginu Markviss.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.