Skagafjörður áætlar jákvæðan rekstur og miklar framkvæmdir

Mynd: Óli Arnar
Mynd: Óli Arnar

Fjárhagsáætlun Skagafjarðar fyrir árin 2025 til 2028 var samþykkt af sveitarstjórn 27. nóvember sl., en með henni er mörkuð stefna um fjárheimildir sviða og stofnana sveitarfélagsins til næstu fjögurra ára, ásamt getu sveitarfélagsins til framkvæmda, viðhalds og niðurgreiðslu skulda. Með fjárhagsáætluninni var einnig samþykkt áætlun um nýfjárfestingar og viðhaldsverkefni á árinu 2025, en nýfjárfestingar hafa aldrei í sögu sveitarfélagsins verið áætlaðar meiri en á komandi ári, eða í heild framkvæmdir upp á tæpan einn og hálfan milljarð.

Mikil vinna hefur verið lögð í gerð áætlunarinnar en að henni hafa komið fyrir utan kjörna fulltrúa sveitarfélagsins, sveitarstjóri, sviðsstjórar og fjármálastjóri ásamt mörgum öðrum starfsmönnum sveitarfélagsins. Vinnan hófst fyrr á árinu 2024 en áður hefur verið. Samhliða var unnið með KPMG að uppsetningu mælaborðs svo hægt sé að fylgjast enn betur með lykiltölum í rekstri sveitarfélagsins út frá settum markmiðum. Þetta breytta vinnulag, ásamt ítarlegri markmiðasetningu fyrir reksturinn, mun auðvelda eftirfylgni og alla ákvarðanatöku til framtíðar. Forsenda vinnunnar eru tillögur sem lagðar voru fram í skýrslu HLH ehf., haustið 2023, um leiðir sem sveitarfélagið gæti farið til að bæta enn frekar rekstur sinn.

Niðurstaðan ánægjuleg

Niðurstaða áætlunarinnar er virkilega ánægjuleg en ljóst er að vinna síðustu ára um hagræðingu í rekstri og ábyrga stefnu í fjárfestingum er að skila sér. Helstu tölur rekstrarafkomu ársins 2025 eru að gert er ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu A-hluta sveitarsjóðs um 492 m.kr. og að sameiginlegur rekstrarafgangur samstæðunnar í heild verði 794 m.kr. Þrátt fyrir miklar fjárfestingar á árinu 2025 þá er gert ráð fyrir að afborganir lána verði 78 m.kr umfram nýjar lántökur sem þýðir áframhaldandi lækkun á skuldaviðmiði A-hluta og samstæðunnar í heild, sjá mynd 1.

Mynd 1. Þróun á skuldahlutfalli og skuldaviðmiði fyrir A- og B hluta Skagafjarðar síðustu ár ásamt áætlaðri niðurstöðu til ársins 2028, en eins og sjá á myndinni þá hafa skuldaviðmiðin lækkað verulega mikið síðustu ár ásamt því að gert er ráð fyrir áframhaldandi lækkun til ársins 2028.

Lækkuð álagningarprósenta á íbúa

Í annað skiptið er einnig lækkuð álagningarprósenta fasteignaskatts íbúðarhúsa sem er virkilega jákvætt eftir miklar fasteignamatshækkanir undanfarinna ára. Það er markmið okkar að ná fram meiri lækkun fasteignagjalda og betra jafnvægi þeirrar gjaldtöku við fasteignamatið í samvinnu við stjórnvöld, en til að svo megi verða þarf Alþingi að breyta lögum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. En betra jafnvægi í gjaldtökunni óháð framlögum ríkisins til lögbundinna verkefna eru einhver mestu lífskjaramál sem hægt er að vinna að fyrir Skagfirðinga.

Nýframkvæmdir og viðhald 2025

Á árinu 2025 er gert ráð fyrir að fjárfestingar í nýframkvæmdum á vegum Skagafjarðar verði í heild um 1,5 milljarður. Þar af er áætlað að 1.191 m.kr. komi frá rekstri sveitarfélagsins, 441 m.kr fáist með sölu fasteigna og að hlutur ríkissjóðs í sameiginlegum verkefnum og samfélagssjóður KS verði um 304 m.kr. Þá er gert ráð fyrir að viðhaldsframkvæmdir nemi 161 m.kr. á árinu 2025.

Helstu fjárfestingar næsta árs eru að lokið verður við nýbyggingu leikskóla í Varmahlíð (350 m.kr.), upphaf framkvæmda við nýja ytri höfn á Sauðárkróki (250 m.kr.), gatnaframkvæmdir á Sauðárkróki við Víðigrund, Túngötu og nýtt hverfi í Sveinstúni (215 m.kr.), verklok uppbyggingar Sundlaugar Sauðárkróks (111 m.kr.), bygging aðstöðuhúss fyrir veitu- og framkvæmdasvið (150 m.kr.), áframhaldandi endurbætur/hönnun á skólahúsnæði Árskóla og Ársala (109 m.kr.), stækkun verknámshúss Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra (47 m.kr.), áframhaldandi endurbætur Grunnskólans austan Vatna á Hofsósi ásamt því að ljúka við teikningar af breytingum aðstöðu skólans og íþróttaaðstöðu (31,5 m.kr.) og kaup á nýjum slökkvibíl í Varmahlíð (30 m.kr.). Hér að framan eru talin upp nokkur dæmi en heildarlista yfir nýframkvæmdir og viðhald er að finna á heimasíðu sveitarfélagsins.

Bjartsýni fyrir komandi ár

Það er öllum ljóst að rekstarumhverfi einstaklinga, fyrirtækja og sveitarfélaga hefur á margan hátt verið erfitt á liðnum árum vegna Covid-faraldurs og hárrar verðbólgu og vaxta. Núna horfum við hins vegar fram á lækkandi verðbólgu og lækkandi vaxtastig sem mun létta róðurinn fyrir alla. Það er gleðiefni að íbúum Skagafjarðar hefur fjölgað hægt og rólega, en samkvæmt þjóðskrá voru þeir 4.431 þann 1. desember sl. Hér er nær ekkert atvinnuleysi og atvinnulífið er sterkt sem sjá má meðal annars á því hversu mikið hefur verið framkvæmt í sveitarfélaginu á árinu 2024 af bæði einstaklingum og fyrirtækjum. Þetta er mjög jákvætt og því leggjum við sem skipum meirihluta sveitarstjórnar mikla áherslu á að gera alla okkar innviði eins og leikskóla, skóla, íþróttamannvirki og þjónustu við íbúa og fyrirtæki sem besta þannig að hingað vilji áfram flytja fólk og taka þátt í uppbyggingunni.

Við óskum Skagfirðingum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla með þökk fyrir gott samstarf á árinu sem er að líða og hlökkum til að mæta nýju ári með nýjum verkefnum.

Meirihluti sveitarstjórnar Skagafjarðar

Einar E. Einarsson

Gísli Sigurðsson

Hrefna Jóhannesdóttir

Hrund Pétursdóttir

Sólborg Sigurrós Borgarsdóttir

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir