• ks

Verkefnið sýnir mikilvægi þess fyrir allan sjávarútvegsgeirann að nýta hliðarafurðir á sjálfbæran hátt

Judith Maria Scheja og Hjörleifur Einarsson vinna að verkefninu. MYND/BIOPOL
Judith Maria Scheja og Hjörleifur Einarsson vinna að verkefninu. MYND/BIOPOL

Fiskifréttir Viðskiptablaðsins sögðu frá því í byrjun desember að nýlega birtist grein í vísindatímaritinu Marine Drugs eftir starfsfólk BioPol og Háskólans á Akureyri um þróun aðferða til að hámarka nýtingu á kollageni úr grásleppuhvelju. Framkvæmdastjóri Biopol, segir þarna vera möguleg tækifæri til vinnslu. Fyrirtæki í Póllandi er nú með heit- og kaldreykta grásleppu héðan til skoðunar.

 „Við byrjuðum á rannsóknarstofu hjá okkur á Skagaströnd og síðan vorum við að skala þetta upp hjá Breið á Akranesi,“ segir Halldór Gunnar Ólafsson, framkvæmdastjóri Biopol, um þróun nýrra aðferða til að vinna kollagen úr grásleppuhvelju.

Ritrýnd grein eftir starfsfólk Biopol og Háskólans á Akureyri um verkefnið var nýlega birt í vísindatímaritinu Marine Drugs. Greinin sem heitir upp á ensku „Maximizing Collagen Yield from Underutilized Lumpfish (Cyclopterus lumpus) Skins by Optimizing Pre-Cleaning and Extraction Methods“, er hluti af meistaranámi starfsmanns Biopol, Judith Mariu Scheja, við Auðlindadeild Háskólans á Akureyri. Hún útskrifaðist þaðan í júní í sumar.

Mikilvægt fyrir allan geirann  

Judith Maria Scheja fæddist í Póllandi en ólst upp í Þýskalandi. Hún er líffræðingur í grunninn og hefur búið á Skagaströnd í fimm ár. Judith bendir á að þegar komi að grásleppu sé fiskurinn veiddur, hrognin fjarlægð og allur fiskur skilinn eftir sem ónotuð hliðarafurð sem sé í allt um sextíu prósent af veiðinni.

„Á hinn bóginn sjáum við verðmæti í fiskikollageni, ekki bara í fiskiðnaði heldur einnig í snyrti- og lyfjaiðnaði,“ segir Judith. „Þetta verkefni opnaði ekki aðeins dyr fyrir því að gera rannsókn sem á endanum leiðir til að þess að við hámörkum það kollagen sem við náum úr grásleppuhveljunni heldur sýnir verkefnið einnig mikilvægi þess fyrir allan sjávarútvegsgeirann að nýta hliðarafurðir á sjálfbæran hátt. Það gæti verið þess virði að kanna þessar hliðarafurðir frekar en að fleygja þeim.“

Aðferðirnar afgerandi

Í vísindagreininni í Marine Drugs er lögð áhersla á sjálfbærni og nýsköpun í nýtingu sjávarfangs sem annars færi til spillis. Segir í samantekt Biopol í tilefni greinarinnar að grásleppuhvelja sé almennt afgangsafurð í sjávarútvegi. Rannsóknin sýni fram á möguleika þess að hún sé nýtt sem hráefni fyrir framleiðslu á hágæða kollageni.

„Höfundarnir einblína á að betrumbæta forhreinsun- og útdráttaraðferðir til að hámarka magn og gæði kollagens sem unnið er úr hveljunni. Er vinna þessi mikilvægt framlag til sjálfbærrar nýtingar sjávarfangs og getur skapað aukin verðmæti fyrir íslenskan sjávarútveg,“ segir í samantektinni.

Þá segir að í rannsókninni hafi komið fram að rétt forhreinsun og val á viðeigandi efnum, eins og sýru, basa eða ensíma, hafi haft afgerandi áhrif á niðurstöðurnar.

Nærri allt kollagenið einangrað

„Með því að stilla af hita og tíma í hverju skrefi tókst höfundum að einangra nánast allt kollagen sem reikna má með að sé í hráefninu og þar að auki var það mjög hreint. Þetta er mikilvægt skref fyrir líftækniiðnað sem getur nú farið að líta á grásleppuhvelju sem hráefnisuppsprettu fyrir kollagenframleiðslu,“ segir í samantekt starfsfólksins.

Undirstrikað er að rannsóknin sé mikilvæg fyrir umræðu um sjálfbærni í sjávarútvegi því hún sýni hvernig vanmetið hráefni, sem oft sé hent, geti orðið verðmæt afurð. „Með því að hámarka nýtingu afurða sem til verða við hrognkelsaveiðar má ekki aðeins draga úr sóun heldur einnig skapa ný tækifæri til atvinnuþróunar og nýsköpunar í sjávarútvegi.“

Halldór Gunnar Ólafsson segir að árleg veiði af grásleppu við Ísland sé um fjögur þúsund tonn. Á að giska 2.200 tonn af því séu hausar og hvelja. „Hausinn er í raun að mestu sami gelklumpur eða gerð úr sama efni og hveljan,“ bendir hann á. Því sé úr töluverðu hráefni að moða verði af vinnslu kollagensins úr þessari vannýttu tegund.

Pólverjar skoða reykta grásleppu  

„Svo höfum við náttúrlega verið að vinna með fiskinn sjálfan,“ minnir Halldór á en eins og sagt hefur verið frá í Fiskifréttum hefur unnin grásleppa bæði verið kynnt á sjávarútvegssýningum í Póllandi og Barcelona auk sjávarútvegssýningarinnar í Kópavogi nú í haust.

„Við erum búin að senda sýnishorn til fyrirtækis í Póllandi sem sýndi áhuga eftir sýninguna í Póllandi. Það á eftir að koma í ljós hvernig það endar. Við sendum þeim heitreykta og kaldreykta grásleppu, bæði í flökum og eins heila með beini,“ segir Halldór.

Þó að Pólverjarnir hafi sýnt áhuga segir Halldór eftir að koma í ljós hvort þeir stökkvi á að kaupa þessa vöru héðan eða framleiða hana sjálfir í Póllandi. „Það gæti endað þannig,“ segir hann. Og þá yrði unnið úr grásleppu héðan því þótt Grænlendingar veiði álíka mikið magn af grásleppu og Íslendingar séu hindranir í þar í vegi.

Nálgist að vera fullnýtt

„Það eru fyrst og fremst Ísland og Grænland sem eru að nytja þennan stofn en á Grænlandi er mjög flókið landfræðilega að safna þessu saman af því að þetta er svo dreift upp með vesturströndinni og erfiðar samgöngur.“

Spurður um fleiri möguleika til nýtingar á grásleppunni segir Halldór að þegar hausnum og hveljunni ásamt fiskinum sjálfum hafi verið komið í not sé lítið eftir nema hugsanlega lifrin.

Sem fyrr segir hefur verkefnið með vinnslu kollagens úr grásleppuhvelju verið hluti af meistaranámi Judit sem er starfsmaður hjá Biopol. Rannsókn hópsins var hluti af BlueBio ERA-NET verkefninu PROFIUS með styrk frá tækniþróunarsjóði RANNÍS, Rannsóknamiðstöðvar Íslands.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir