Nýr fiskvegur úr Laxárvatni opnaður
Nýlega var opnaður nýr fiskvegur úr Laxárvatni niður Laxá á Ásum. Stíflan í ánni, sem var orðin slitin og skemmd, leggst af sem og laxastiginn úr vatninu en þó getur yfirfall runnið yfir stífluna ef vatnsstaða er há í Laxárvatni. RARIK sá um framkvæmdina, sem unnin var í samvinnu við Veiðifélag Laxár á Ásum og Veiðimálastofnun en hún er liður í að endurheimta hvernig vatn rann ofan úr Svínadal fyrir 70 árum síðan, eða áður en til Laxárvatnsvirkjunar kom, segir á huni.is
Virkjunin var aflögð 2014 en hún tók u.þ.b. tvo þriðju af vatnsmagni Laxár á Ásum á sex kílómetra kafla. Nýi fiskvegurinn á að auðvelda laxinum að ganga upp í vatnið og þaðan í Fremri Laxá. Framundan eru svipaðar framkvæmdir við stífluna við Svínavatn og gætu þær opnað leið fyrir laxinn upp í Svínavatn. Reiknað er með að Laxárvatn lækki um að minnsta kosti 30 sentímetra og Svínavatn um 70 sentímetra vegna þessara framkvæmda. Myndirnar tók Höskuldur Birkir Erlingsson.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.