Húnaþing vestra tekur þátt í rafrænu geðheilsuátaki
Húnaþing vestra hefur gert samkomulag við Mental ráðgjöf um þátttöku í rafrænu geðheilsuátaki sem nær til starfsfólks sveitarfélagsins. Á vefnum huni.is segir að sveitarfélagið sé fyrsti vinnustaðurinn á Íslandi til að taka rafræna átakið í notkun, að því er segir á vef þess. Með þátttökunni vill það sýna skýra skuldbindingu sína til að setja geðheilbrigði á vinnustað rækilega á dagskrá með því að auka vitund og veita fræðslu um geðheilbrigði fyrir allt starfsfólks sveitarfélagsins. Hjá Húnaþingi vestra starfa um 115 manns á níu starfsstöðvum.
Fræðslan fer fram á stofnunum sveitarfélagsins með rafrænum fyrirlestrum og ýmiskonar stoðefni í kjölfar þeirra og verður framkvæmdin aðlöguð að aðstæðum á hverri starfsstöð fyrir sig. Verkefnið er einn fjölmargra liða í aukinni áherslu sveitarfélagsins á bætta líðan starsfólks og í anda verkefnisins um Heilsueflandi samfélag í hverju geðrækt er einn grunnþátta góðrar heilsu.
„Við í Húnaþingi vestra lítum á andlega heilsu sem einn lykilþátta í því að tryggja vellíðan og framúrskarandi starfshæfni í vinnuumhverfi okkar. Það að innleiða afrænt geðheilsuátak Mental er stórt skref í rétta átt og við erum stolt af því að vera fyrsti vinnustaðurinn til að taka þátt í þessu mikilvæga framtaki. Við vonum að þetta verði öðrum sveitarfélögum og vinnustöðum hvatning til að setja geðheilbrigði í forgang,“ segir Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitarstjóri í frétt á vef Húnaþings vestra.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.