Höfðinglegur styrkur Gæranna á árinu
Nytjamarkaðurinn á Hvammstanga er mörgum af góðu kunnur. Hann er rekinn af Gærunum, vöskum hópi kvenna sem hafa lagt áherslu á að gefa aftur út í samfélagið til hinna ýmsu framfaramála þann ágóða sem er af rekstri markaðarins. Slagorð þeirra er „Eins rusl er annars gull“. Eru það orð að sönnu því á árinu sem er að líða gáfu þær líkt og fyrri ár gjafir til stofnana sveitarfélagsins af miklum rausnarskap, segir á heimasíðu Húnaþings vestra.
Færðu þær slökkviliðinu styrk til búnaðarkaupa sem nýttur var til endurnýjunar á hlífðarfatnaði til nota á vettvangi. Einnig nutu Tónlistarskóli Húnaþings vestra, Leikskólinn Ásgarður og Grunnskóli Húnaþings góðs af gjafmildi gæranna við kaup á bókum, kennslubúnaði og leikföngum. Að síðustu keyptu Gærurnar kaldan pott sem settur verður upp við sundlaugina.
Sveitarfélagið færir Gærunum hjartans þakkir fyrir þeirra mikilvæga framlag til eflingar samfélagsins í gegnum árin og þeirra óeigingjörnu störf. Framlag þeirra er ómetanlegur stuðningur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.