Stjórnin í Miðgarði síðasta vetrardag „Ævintýraljómi yfir þessum tíma“
Hin geysivinsæla hljómsveit Stjórnin fagnar 30 ára starfsafmæli um þessar mundir með pompi og prakt og leggur land undir fót. Það er vel við hæfi að fyrstu tónleikarnir verði í Skagafirði, þar sem sveitin átti mörg snilldar giggin áður fyrr, í Menningarhúsinu Miðgarði síðasta vetrardag, miðvikudagskvöldið 18. apríl 2018.
Eins og við má búast leikur Stjórnin öll sín vinsælustu lög eins og: Eitt lag enn, Við eigum samleið, Ég lifi í voninni, Láttu þér líða vel, Ég gefst ekki upp, Utan úr geimnum, Hamingjumyndir, Þessi augu, Til í allt, Ég elska alla, Ég vil að þú komir, Nei eða já, Allt í einu, Allt eða ekkert, Ekki segja aldrei, Stór orð og Ein. Einnig munu hljómsveitarmeðlimir segja skemmtilegar sögur af ferlinum.
Grétar Örvarsson, Stjórnarmaður, segir Miðgarð og Skagafjörð standa sveitinni nærri á vissan hátt, m.a. vegna tengslanna við “Eitt lag enn” sem Skagfirðingurinn Hörður Ólafsson, eða Bassi, lagði Stjórninni til. „Fyrsta alvöru sveitaballið sem Stjórnin hélt eftir Eurosvision í Zagreb 1990 var í Miðgarði og er ógleymanlegt. Það var fullt út úr dyrum og stemningin engu lík þetta sumarkvöld í júní,“ segir Grétar.
Hvað hefur helst breyst á þessum 30 árum?
„Ótal margt. Sveitaballamenningin sem slík er ekki lengur til og söknum við þess. Því langar okkur til að ríða á vaðið með tónleikum úti á landi og rifja upp stemninguna sem var á þessum tíma og margir eflaust muna. Við munum spila öll vinsælustu lög Stjórnarinnar, sum þeirra höfum við útsett á nýjan hátt og tengja saman með sögum frá ferlinum.“
Aðspurður um hvernig honum finnist þær breytingar sem átt hafa sér stað í ballmenningunni segir Grétar að nú reynir á það með tónleikum Stjórnarinnar á landsbyggðinni hvort fólk hefur áhuga á að koma og upplifa stemninguna á þennan hátt. „Tónleikahald hefur aukist gríðarlega í höfuðborginni og því skildi fólk ekki vilja koma á tónleika í jafn glæsilegt hús og Miðgarður er?“
Einhver skemmtileg bransasaga sem þú getur deilt með lesendum Feykis?
„Þær eru nokkrar sem tengjast Skagafirði og munum við rifja þær upp á tónleikunum 18. apríl. Mér er sérstaklega minnisstætt þegar við komum eitt sinn á föstudagskvöldi um hávetur til að spila í Miðgarði. Við áttum að vera á Hótel Íslandi kvöldið eftir og höfðum ekki skoðað veðurspána nægilega vel. Þegar ballið var búið um nóttina var komið leiðindaveður. En Kiddi keðja, eins og bílstjórinn okkar var kallaður, taldi þetta nú ekki mikið vandamál og æddi af stað með okkur „keðjulaus“. Við vorum rétt komin upp á Vatnsskarð þegar hann pikkfesti hljómsveitarrútuna í snjóskafli og máttum við dúsa þar um nóttina í snarvitlausu veðri. Við vorum síðan sótt upp úr hádegi og þar sem ófært var suður var ekkert annað að gera en spila einhvers staðar á laugardagskvöldinu, sem við og gerðum á Kaffi Krók!“
Engin er Stjórnin ef Sigga Beinteins er ekki með. Hún segir það hafa verið gaman að þeysa um landið hér áður fyrr og spila á sveitaböllunum. „Þetta var alveg rosalega skemmtilegur tími þó þetta hafi oft tekið svolítið á og ég held að maður myndi nú ekki leika þetta eftir í dag. Ég held líka að þessi tími komi ekki aftur. Landslagið í kringum svona spilamennsku er mikið breytt. Á árunum 1990, 1991 og 1992 þeystumst við um landið þvert og endilangt hverja einustu helgi allt sumarið, héldum oftast barnaböll að deginum til á stöðunum sem við spiluðum á og svo um kvöldið fyrir fullorðna fólkið. Yfir sumartímann bjuggum við meira og minna í rútum sem voru með kojum og auðvitað öllum græjunum okkar. Og við reyndum að ná svefni á ferðalögum milli staða sem gekk nú ekki alltaf sérlega vel…en í minningunni er einhver ævintýraljómi yfir þessum tíma,“ segir hún en pínu söknuður virðist nú samt eftir sveitaböllunum.
„Já ég sakna þeirra oft. Það var eitthvað sérstakt við að spila á þessum böllum, það var einhver ólýsanleg stemning sem varð til og það sem mér finnst eiginlega verst er að unga kynslóðin í dag fær ekki að kynnast þessum tíma sem var svo skemmtilegur.“
Hvaða lag er í uppáhaldi hjá þér?
„Ég á voða erfitt með að taka eitthvað eitt lag út úr Stjórnar pakkanum vegna þess að megnið af þeim voru lög sem að voru sértaklega valin inn á diskana og hentuðu bandinu og okkur vel. Þessa dagana erum við Grétar að vinna lagalistana fyrir tónleikana sem við komum með norður og það er alveg ótrúlegt hvað við höfum átt mikið af svokölluðum „hitt“ lögum. Lögin sem við komum til með að spila á tónleikunum fyrir norðan eru lög sem að allir þekkja og kunna og geta sungið með. Ef ég á að taka einhver lög út úr öllum lagapakkanum okkar þá held ég að mín uppáhaldslög með bandinu hafi verið Hamingjumyndir, Utan úr geimnum, og af rólegu deildinni eru það lög eins og Ein, Stór orð og Allt eða ekkert
Einhver skemmtileg bransasaga hjá þér?
„Já, það var nú mikið og margt skemmtilegt sem gerðist á þessu árum, við eigum nú nokkrar sögur sem tengjast Miðgarði sérstaklega og við komum til með að segja þær á tónleikunum, svo það er best að segja ekki frá þeim núna. Ég man þó vel eftir því þegar textamöppunni minni var stolið á sveitaballi í Ídölum fyrir norðan. Hljómsveitin stoppaði ballið og byrjaði ekki að spila fyrr en mappan var komin aftur í mínar hendur. Mig minnir að það hafi farið tæpur klukkutími í að finna möppuna. Ballgestirnir komnir í að finna gæjann sem stal möppunni og því var ekki hætt fyrr en hún var fundin. En allt endaði þetta vel og ballið var frábært.“
Auk Siggu og Grétars Stjórnina skipa þeir Friðrik Karlsson, Jóhann Ásmundsson og Sigfús Óttarsson Stjórnina. Segja má að þar sé landsliðið mætt í tónlistarflutningi svo fólk ætti ekki að láta þennan einstaka viðburð framhjá sér fara. Húsið opnar kl. 20:00 en tónleikarnir hefjast kl. 21.00.
Hægt er að fylgjast með Stjórninni á facebook: https://www.facebook.com/stjornin/
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.