Skagfirskir tónar frá skagfirskum konum - Tónleikar í Sæluviku
„Aldeilis, sérdeilis frábært að geta loksins deilt svona viðburði,“ skrifar Hulda Jónasdóttir, tónleikahaldari, á Facebooksíðu sína en framundan eru tónleikar í Sæluviku; Skagfirskir tónar frá skagfirskum konum. Flutt verða lög eftir þrettán skagfirskar tónlistarkonur í nýjum tónleikasal Gránu Bistro á Sauðárkróki, laugardaginn 1. maí.
„Hugmyndin varð til þegar ég var að grúska í gömlu danslagakeppnislögunum vegna tónleikanna sem við héldum í tilefni 60 ára afmælis keppninnar fyrir örfáum árum. Þá fann ég lög eftir fjölda skagfirska kvenna og ákvað strax að þetta mætti ekki glatast. Í framhaldi af því ákvað ég svo að auglýsa eftir lögum eftir skagfirskar konur svo við værum nú ekki eingöngu að vinna með þessi gömlu lög. Ég fékk send lög úr ýmsum áttum svo úr nægu efni var að velja. Ég ákvað strax að gaman væri að búa til tónleikadagskrá með blöndu úr þessum öllu,“ segir Hulda.
Prógrammið á þessum tónleikum samanstendur því á glænýjum lögum eftir ungar og stórefnilegar skagfirskar tónlistarkonur til rúmlega 60 ára gamalla laga, og segir Hulda það vera mjög skemmtilega blöndu. „Rögnvaldur Valbergsson hefur verið mín hægri hönd í undirbúningi fyrir þessa tónleika, sett saman litla hljómsveit sem ætlar að flytja lögin og útsett þau og sett í þennan fína hátíðarbúning sem gestir tónleikanna fá að heyra. Ég veit að það hefur verið mikil vinna hjá honum við sum lögin því þau voru eingöngu til á gömlum kassettum í lélegum gæðum. Valgerður Erlings er ómissandi þegar ég held tónleika og hún ætlar að vera sögumaður kvöldsins og kynna fyrir okkur þessar þrettán tónlistarkonur og sögurnar á bak við lögin þeirra. Sjálf skellti hún í lag sem verður frumflutt á þessum tónleikum.“
Kósý stemning og dúkuð borð
Hulda segir Guðrúnu Gísladóttur hafa verið mikla kjarnorkukonu og megi telja hana frumkvöðul danslagakeppninnar á Króknum. „Hún á, held ég, stóran þátt í því að skagfirskar konur fóru að semja lög og við ætlum að heiðra hana Gunnu á þessum tónleikum. Við ætlum að dusta rykið af rúmlega 60 ára gömlu lagi og flytja það fyrir tónleikagesti og fá ungu tónlistarkonurnar til að flytja það. Þess má til gamans geta að Bára Jónsdóttir er elsti höfundurinn, fædd 1919, en sú yngsta Malen Áskelsdóttir 1999 þannig að það er töluverður aldursmunur á tónlistarkonunum eða heil 80 ár.“ Hulda segir að trúlega eigi það eftir að koma mörgum á óvart hvaða konur eigi lög á tónleikunum, konur sem eru þekktar fyrir allt annað en að semja lög.
Tónleikarnir verða haldnir í nýjum tónleikasal Gránu og eru þeir fyrstu sem haldnir verða þar. „Skemmtilegt að allra fyrstu tónleikarnir séu tónleikar með skagfirskum tónlistarkonum og skagfirskum flytjendum,“ segir Hulda sem lofar kósý stemmingu með dúkuðum borðum og kertaljósum.
Hún segir miðasölu hafa farið mjög vel af stað þrátt fyrir Coviddoða í samfélaginu. „Fólk er greinilega farið að þrá það að komast á menningarviðburði, enda eigum við það svo sannarlega skilið eftir erfitt ár. Ef við sjáum fram á að aðsóknin fari fram úr björtustu vonum þá er aldrei að vita nema við séum til í aukatónleika svo sem flestir fái að njóta.“
Ennþá er eitthvað til af miðum á tónleikanna en að sögn Huldu renna þeir hratt út. Miða má tryggja sér með því að hringja í síma 8660114.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.