Rúnar Þór safnar fyrir ferð á slóðir Lord of the Rings
Rúnar Þór Njálsson frá Blönduósi á sér þann draum að ferðast á vit ævintýra, alla leið til Nýja-Sjálands í 14 daga skoðanatúr og bralla ýmislegt tengt sagnaveröld Lord of the Rings. Rúnar Þór er 26 ára gamall og bundinn hjólastól en hann fæddist þremur mánuðum fyrir tímann, aðeins 4 merkur/1kg og er með CP fjórlömun. Til þess að geta fjármagnað drauminn hefur hann stofnað fjámögnunarsíðu á netinu en ferðin fyrir hann og aðstoðarfólk kostar um 27.000, evrur.
Rúnar Þór segir að það að vera fatlaður og bundinn í hjólastól sé mjög erfitt. „Þú getur ekki gert margt sem þú vilt gera og á hverjum degi horfir þú upp á fólk fara og gera hluti sem þú vildir óska að þú gætir gert. En þá er enn mikilvægara að gefast ekki upp og gera allt sem í þínu valdi stendur til að láta þína drauma rætast, og það er ég einmitt að reyna nú. Minn draumur er að ferðast.“
En vegna fötlunar hans og stærðar og erfiðleika þessa draums, getur hann ekki gert þetta einn og þarf að hafa gott fólk með í för, sér til aðstoðar. „Ég vissi sem er að ég persónulega myndi aldrei hafa efni á þessu enda nóg fyrir hvern og einn ferðalang að greiða fyrir sig allt sem kemur að slíku ferðalagi. En vegna minnar hreyfihömlunar þarf ég persónulega að greiða fyrir mína þrjá aðstoðarmenn og stofnaði ég því fjáröflunarsíðu. Nú hefur fólk deilt þessu og styrkt en það vantar enn töluvert upp á,“ segir hann en hann hefur m.a. leitað til fyrirtækja í þeirri von að þau gætu styrkt hann fjárhagslega. Þegar þetta er skrifað hafa safnast alls 12,777 evrur af 27.000 evra markmiðinu og vantar því enn töluvert upp á.
Ef einhver fyrirtæki vilja gerast sérstakir styrktaraðilar fyrir Rúnar Þór segir hann að þau verði nefnd sérstaklega þegar þessari ferð verður gerð skil í máli og myndum síðar. Einnig er þó hægt að styrkja nafnlaust ef þess er óskað.
„Allt skiptir máli. Því fleira fólk og fyrirtæki sem sjá þetta og hjálpa, því líklegra er þetta til árangurs. Margt smátt gerir eitt stórt,“ segir Rúnar Þór og bendir á að fólk geti styrkt um þær upphæðir sem það óski sér. Eins og máltækið segir gerir margt smátt eitt stórt.
Fjáröflunarsíðuna má finna á slóðinni https://www.gofundme.com/2dj937ms og reikningurinn hjá Rúnari Þór 0307-26-9119 kt: 2611912619.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.