Lillý stóri vinningurinn í Línu Langsokk

Pétur Guðjónsson, leikstjóri, leiðbeinir leikurunum Emilíönu Lillý sem leikur Línu, Kristínu Björgu sem leikur Önnu og Ásbirni Waage sem leikur Tomma. Mynd: PF.
Pétur Guðjónsson, leikstjóri, leiðbeinir leikurunum Emilíönu Lillý sem leikur Línu, Kristínu Björgu sem leikur Önnu og Ásbirni Waage sem leikur Tomma. Mynd: PF.

Leikfélag Sauðárkróks frumsýnir leikritið um Línu Langsokk nk. föstudag og er óhætt að segja að margir séu orðnir spenntir að fá að horfa á. Leikstjóri er hinn geðþekki Akureyringur Pétur Guðjónsson, sem einhverjir kannast við frá seinasta hausti en þá leikstýrði hann leikhópi Fjölbrautaskólans sem setti upp söngleikinn Grease. Pétur er í viðtali í Feyki vikunnar en þar segir hann að stóri vinningurinn hafi komið upp þar sem leikkonan unga og efnilega, Emilíana Lillý, fari á kostum.

Leikritið um Línu Langsokk er eitt af þekktari leikritum sem hægt er að vinna með og segir Pétur því vissar væntingar, bæði fyrir útliti og efnistökum, vera til staðar. „Við förum óhefðbundnar leiðir sums staðar og erum hefðbundin annars staðar. Við leikum okkur svolítið með tónlistina, sem ég vona að muni skila bæði fallegri sýningu og fjörugri. Svo er öflugur hópur sem kemur að þessu, fagmenn í hverju horni. Af leikarahópnum er ég heppinn með leikara, unga og minna reynda í bland við eldri leikara sem hafa gríðarlega reynslu. Það er blanda sem heppnast vel í þessari uppsetningu. Svo er það nú þannig að þegar Lína Langsokkur er sett á svið, þá mæðir mikið á leikaranum sem túlkar Línu.

Og þar unnum við stóra vinninginn en Emilíana Lillý sem leikur Línu hefur það vissulega í genunum. Hennar túlkun er einmitt bæði klassísk og frumleg sem er gott. Hún hefur svo fallega söngrödd að ég kemst við á hverri æfingu. Svo nýtur hún þess að vera Lína Langsokkur. Og ég gæti haldið áfram að tala um þá sem eru í hlutverkum en ég held ég stoppi þarna,“ segir leikstjórinn sem segir það vera lögreglumál að missa af sýningunni. „Klængur kemur og sektar ykkur sem ekki mætið. Ég ætla mér að lofa því að öll fjölskyldan fari skælbrosandi frá okkur eftir sýningu.
Og nú er ég búinn að setja mig og allan leikhópinn undir gríðarlega pressu. Sjáumst í Bifröst!“

Hér fyrir neðan má sjá myndbrot af Línu syngja vögguvísu og ýmislegt fleira leynist á ræmunni.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir