LET'S DANCE / David Bowie
Hinn magnaði listamaður, David Bowie, lést 10. janúar og hafði aðeins örfáum dögum áður sent frá sér sína nýjustu sólóplötu, Black Star. Bowie naut gríðarlegrar virðingar í tónlistarheiminum, var oft líkt við kamelljón því hann virtist geta tileinkað sér hinar ólíkustu tónlistarstefnur og gert að sínum. Lagið að þessu sinni er Let's Dance af samnefndri plötu sem var hans vinsælasta þó hún þætti kannski ekki hans besta.
Let's Dance setti Bowie saman með hinum magnaða diskógítarista og lagahöfundi, Nile Rodgers, sem yngri kynslóðir kannast kannski við sem gítarleikarans í lagi Daft Punk, Get Lucky. Bowie ákvað að reyna aðeins fyrir sér í vinsældapoppi í upphafi níunda áratugarins (eitís) og sendi frá sér Let's Dance árið 1983 þar sem hann blandaði saman blús/rokkgítar og danstónlist. Það kom Bowie á óvart hvað platan sló í gegn en hún innihélt nokkra risasmelli eins og Modern Love, China Girl, Cat People (Putting Out Fire) og síðast en ekki síst titillagið sjálft.
Let's Dance var átjánda plata Bowie og hefur selst í vel yfir 10 milljónum eintaka. Bæði aðdáendur og gagnrýnendur hafa skipst í tvo hópa varðandi gæði Let's Dance og sjálfur virtist Bowie missa fótanna í framhaldinu. Næstu árin náði hann sér engan vegin á strik og sagði sjálfur að velgengni plötunnar hafi þrýst honum í aðra átt en hann hafi í raun ætlað sér.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.