Lemon opnaði á Króknum í gær
Sjötti Lemon staðurinn á landinu opnaði á Sauðárkróki í gær en hann er staðsettur á Aðalgötu 20b, þar sem Þreksport var áður til húsa. „Það var yndisleg stund í morgun þegar Hjalti Vignir Sævaldsson, sem dreginn var út sem fyrsti viðskiptavinurinn, mætti og opnaði formlega staðinn fyrir okkur,“ segir á Facebook-síðu staðarins.
Lemon býður upp á ferskan og safaríkan mat, matreiddan á staðnum, úr besta mögulega hráefni hverju sinni og segir í kynningu að það sé mantran sem aldrei er vikið frá. Það eru hjónin Hasna Boucham og Stefán Jónsson sem eiga og reka staðinn.
Stefán segir það hafa gengið upp og ofan að opna staðinn vegna Covidáhrifa en erfitt var að fá búnað til landsins sem gekk þó að lokum. „Málið er að átta vikur urðu að sautján vikna bið eftir búnaði og öðru. En svona er þetta bara, en þetta gekk mjög vel þegar búnaðurinn var kominn á staðinn. En Covid var að stríða okkur og þess vegna opnuðum við seinna en við ætluðum,“ segir Stefán.
Opið verður alla daga vikunnar frá klukkan 11 til 20 og segir Stefán að boðið verði upp á samlokur, djúsa, skot og kaffi, allt meinhollt og engin aukaefni. „Þetta er bara biluð hollusta! Eins og staðan er núna mega 20 manns vera inni í einu samkvæmt Covid reglum en flestir taka með sér enda virkar Lemmon mest þannig. En við ætlum að fara í að afgreiða til fyrirtækja í hádeginu og í stærri pantanir alla daga vikunnar.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.