Lausir fætur á sviði í Bifröst - Kíkt í leikhús
Þessa dagana sýnir Nemendafélag Fjölbrautarskólans á Norðurlandi vestra dans- og söngleikinn Lausir fætur, eða Footloose, eftir Herbert Ross í leikstjórn Kolbrúnar Lilju Guðnadóttur. Með aðalhlutverk fara þau Ingi Sigþór Gunnarsson og Guðný Rúna Vésteinsdóttir sem leika unglingana Aron og Evu.
Leikritið fjallar um unglingspiltinn Aron sem flytur ásamt móður sinni úr stórborg í smábæ þar sem yfirvöld hafa bannað rokktónlist og dans. Hann hristir aldeilis upp í samfélaginu og fær skólafélaga sína til að hjálpa sér við að finna leið til að hægt sé að dansa á lokaballi skólans en til þess þarf hann að leika á lögin og prest bæjarins sem hefur gert það að markmiði sínu að koma í veg fyrir þess lags ólifnað. Það flækir svo málin þegar Aron verður hrifinn af Evu, dóttur prestsins.
Söguþráðurinn helst að mestu óbreyttur frá því sem við þekkjum úr kvikmyndunum sem gerðar hafa verið um söguna, en þó hefur leikhópurinn gert hana að sinni og heimfært nokkrar staðreyndir á snilldarlegan hátt nær Sauðárkróki. Við það færist sýningin áhorfendum nær og eiga eflaust margir eftir að kannast við einhverjar ónafngreindar sögupersónur á sviðinu. Einnig skemmir ekki fyrir að áhorfendur fá að „taka þátt“ í hluta sýningarinnar.
Sýningin er mjög skemmtileg í alla staði. Leikurinn mjög góður, söngurinn frábær og dansinn líflegur og skemmtilegur. Sviðsmyndin er einföld og vel útfærð. Leikarar ná vel til áhorfenda sem skilar sér í góðri stemningu í salnum. Sannarlega kærkomin upplyfting á þessum drungalegu tímum.
Æfingar hófust í janúar og að sögn Maríu Sigríðar Hannesdóttur Berg skemmtanastjóra NFNV, sýningarstjóra og leikstjóra var áhuginn fyrir leikritinu mikill og samanstendur hópurinn í ár af mjög hæfileikaríkum krökkum, samblandi af reynsluboltum og nýjum andlitum. Rúmlega 40 manns koma að sýningunni á einhvern hátt og nefnir hún að samstaðan í hópnum hefur verið mjög góð frá upphafi.
Nú fer hver að verða síðastur að sjá Footloose þar sem fáar sýningar eru eftir. Næsta sýning er í kvöld, miðvikudaginn 24. febrúar, fimmtudaginn 25., báðar kl 20:00, föstudaginn 26. kl 20:00 og 00:00 og á laugardaginn kl 16:00 og 20:00. Miðasala er í síma 455 8070 á milli 15 – 17. Miðaverð er 2.500 og vert að taka það fram að vegna sóttvarna er ekki sýningarhlé, fjöldatakmarkanir eru á hverja sýningu og grímuskylda er í sýningarsal.
/ Soffía Helga Valsdóttir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.