Heimur Jóns og Helgu – Málþing í Kakalaskála

Minningarplatti um Helgu Sigurðardóttur, fylgikonu Jóns Arasonar á Hólum, í Húsgilsdragi suðvestur af Flugumýrardal, við suðurenda Glóðafeykis í Blönduhlíð í Skagafirði. Mynd: PF.
Minningarplatti um Helgu Sigurðardóttur, fylgikonu Jóns Arasonar á Hólum, í Húsgilsdragi suðvestur af Flugumýrardal, við suðurenda Glóðafeykis í Blönduhlíð í Skagafirði. Mynd: PF.

Laugardaginn 28. ágúst verður haldið málþing um Jón Arason, Hólabiskup, en hann var síðasti kaþólski biskupinn á Íslandi fyrir siðaskipti, og Helgu Sigurðardóttur, fylgikonu hans. Málþingið átti að fara fram í fyrrasumar en var frestað vegna Covid.

Jón Arason var skáld og athafnamaður mikill og flutti hann m.a. fyrstu prentsmiðjuna á Íslandi til Hóla. Hann var tekinn af lífi ásamt tveimur sonum sínum á haustdögum 1550 í Skálholti.

Vorið eftir komu dönsk herskip til landsins með það að markmiði að bæla niður alla mótspyrnu og taka meðal annars Hólastól í sína umsjá. Þegar fregnir af ferðum danskra bárust til Hóla fór Helga í felur í Blönduhlíðarfjöllum og endaði í mosalituðu tjaldi í Húsgilsdragi í hlíðum Glóðafeykis. Þar var Helga að sögn lungann úr sumrinu ásamt Guðrúnu Magnúsdóttur, sonardóttur sinni.

Það var fyrir réttu ári síðan að  minningarplatta um Helgu Sigurðardóttur var komið fyrir í Húsgilsdragi af áhugahópi um sögu og afdrif Helgu en málþingið sem nú er á dagskrá féll niður þá vegna Covid.

„Þetta málþing átti að vera í fyrra, daginn eftir að farið var í Húsgilsdrag. Við tókum þann pól í hæðina að fjalla um siðaskiptin og þau biskupshjón. Það eru einhverjar smábreytingar frá því í fyrra en Guðrún Norðdal hefur bæst í hópinn og er nú ekki slæmt,“ segir Sigurður Hansen, listabóndi í Kringlumýri og eigandi Kakalaskála. „Þessi málþing hafa verið í ein sjö ár í samvinnu við Stofnun Árna Magnússonar. Við höfum verið meira tengd Sturlungatímanum en mér finnst allt í lagi að teygja sig aðeins fram í aldirnar.“ Sigurður segir að ef sóttvarnareglur herðist og setji málþingið í hættu á ný sé ráðgert að vera með dagskrána í beinu streymi á netinu.

Málþingið hefst klukkan 14 með erindi Árna Heimis Ingólfssonar, tónlistarfræðings, en hann fjallar um kirkjusöng á Íslandi á dögum Jóns Arasonar. Eftir honum mun Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri segja frá biskupi, manninum á bak við mýtuna og Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar, flytur erindi sitt; Kringum kvæði Jóns Arasonar. Eftir kaffihlé stígur Jón Karl Helgason á stokk og ræða um helga dóma biskups og loks Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup á Hólum, og segir frá ævi og störfum Helgu Sigurðardóttur. Sjá HÉR

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir