Valdís og JóiPé komin á topp Vinsældalista Rásar2
Fyrr í sumar gáfu Valdís og JóiPé út sumarsmellinn Þagnir hljóma vel. Nú eru auðvitað margir sem gefa út sumarsmelli sem smella svo bara ekki. En þessi smellur stendur undir nafni og er Króksarinn Valdís nú á toppi Vinsældarlista Rásar2, lagið lyfti sér í efsta sætið í vikunni eftir að hafa setið í þriðja sætinu í síðustu viku.
„Ég er ótrúlega ánægð og þetta kom mjög á óvart. Átti alls ekki von á því að fara í fyrsta sætið með fyrsta íslenska lagið mitt,“ sagði Valdís þegar Feykir spurði hana hvort toppsætið hefði komið á óvar.
Valdís hefur sent frá sér nokkur áheyrileg popplög síðustu árin en ekki komist á topp vinsældalista fyrr en nú og lögin hennar hafa hingað til verið með enskum textum. Lag og texti eru Þagnir hljóma vel eru eftir Valdísi Valbjörnsdóttur, JóaPé og Jóhannes Ágúst en hann pródúseraði lagið líka.
Nú sygnirðu lagið á íslensu, er þetta stefnubreyting? „Já, mig hefur lengi langað til að gefa út tónlist á íslensku og stefnan er að gera meira af því. En ég er samt alls ekki að loka á enskuna, finnst ég ekki þurfa að binda mig við annað hvort.“
Ætlarðu að vinna fleiri lög með JóaPé? „Já, við erum að stefna á að vinna meira saman, Jói er frábær lagahöfundur og það er mjög gott og gaman að vinna með honum.
Hvað á að gera til að fagna toppsætinu? „Ætli ég fagni ekki bara með því að gera fleiri lög!“ segir Valdís.
Þess má geta að í öðru sæti vinsældalistans eru reynsluboltanir í Nýdönsk með Fullkomið farartæki og Rán og Páll Óskar sitja í þriðja sæti með Gleðivímuna. Vinsældalisti Rásar 2 er kynntur á sunnudögum eftir kvöldfréttir kl. 18.10. Listinn samanstendur af mest spiluðu lögum Rásar 2 í hverri viku.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.