Hugleiðing um áramót | Valgerður Erlingsdóttir skrifar

Nú þegar við siglum inn í nýja árið er ekki úr vegi að líta yfir farinn veg og flýtur hugur þá oftar en ekki til æskuáranna, heim í Skagafjörðinn, þar sem landfestar lífs okkar margra eru sjálfsagt enn bundnar. Þegar ég hugsa til þessara tíma er mér þakklæti efst í huga. Þakklæti fyrir að hafa alist upp í samfélagi sem ég fann að ég var partur af, með fólki sem veitti mér rými til þess að vera ég sjálf, á sama tíma og það gaf mér tækifæri til að efla mig, vaxa og rækta sem manneskju.

Ég fann að ég tilheyrði uppbyggilegu samfélagi sem veitti mér styrk til að prófa mig áfram og taka þátt í þeim margvíslegu athöfnum sem áhugasviðið kallaði á hverju sinni og fyrirgaf mér þau fjölmörgu mistök sem ég gerði á þeirri vegferð. Þau voru ansi mörg, eins og gengur og gerist í lífi okkar allra en sem betur fer, eftir því sem ég best veit, léttvæg.

Þegar ég, nú miðaldra, lít til baka sé ég betur hvað fólkið sem ég ólst upp með, þroskaði mig og nærði á margan hátt. Það veitti mér næmni og ákveðna skynsemi sem hafa stutt mig í að vega og meta aðstæður, kjark og þor til að taka ákvarðanir og eins seiglu sem hefur hjálpað mér að yfirstíga þær áskoranir og hindranir sem mér hafa mætt á lífsins leið. En það dýrmætasta sem ég tók með mér, og hefur fylgt mér, er að láta mig aðra varða og þá hversu mikilvægt það er að láta fólk finna að það tilheyri. Því öllum er það okkur mikilvægt að finna að við tilheyrum og séum þar með partur af samfélagi. Við munum sennilega öll eftir einstaklingum sem hafa veitt okkur eftirtekt með einhverjum hætti. Sú eftirtekt fellst ekki endilega í orðum, þó hún sé sannarlega þar líka. Því hana er ekki síður að finna í augliti, veifi eða brosi.

Langar mig að nefna einstaklinga sem ég hef svo oft hugsað til í gegnum árin en tekið skal fram að ég gæti talið upp svo ótalmarga hér. En öll áttu þau sinn þátt í því að mér fannst ég tilheyra – en kannski með ólíkum hætti. Einu sinni sem oftar var ég stödd hjá Bjarna Har, að kaupa mér gúmmískó og því fylgdi auðvitað spjallstund. Er við kvöddumst þakkaði ég honum fyrir að hafa alla tíð tekið svona vel á móti mér og tjáði honum að ég tæki sérstaklega vel eftir að viðskiptavinir hans kæmu alltaf inn með bros á vör, enda væri ekki annað hægt þar sem hann tæki svo einstaklega vel á móti sínum kúnnum. Þá segir þessi elska: „Veistu það Valgerður mín, að mér líkar bara ekki illa við nokkurn einasta mann.“ Bjarni hafði tekið ósköp einfalda ákvörðun á einhverjum tímapunkti, en hún var sú að koma fallega fram við alla sem hann hitti og með virðingu. Vera bara ætíð vingjarnlegur, því það gerði allt svo mikið betra. „Og svo hefur Bjarni bara svo gaman að fólki, það er svo skemmtilegt“. Svo hló hann og klappaði mér á öxl í kveðjuskini.

Ég man er ég gekk um götur bæjarins sem barn og hitti fólk sem gaf sér tíma til að spjalla við mig. Þá langar mig að nefna þar hana Minnu Bang. Minna hafði komið frá Danmörku ásamt manni sínum, honum Ole. Hún var innflytjandi sem fékk tækifæri til þess að aðlagast umhverfi sínu og ræktahæfileika sína sem hún deildi með okkur hinum. En hún hafði mikil áhrif á menningarlíf í Skagafirði. Öll framkoma Minnu einkenndist af gleði og kærleika. Enn í dag þegar ég geng um Aðalgötuna sé ég hana svo ljóslifandi fyrir mér koma á hjólinu, með spanjóluna og alltaf skyldi hún stoppa og spyrja frétta.

Einnig man ég svo vel eftir Dóru hans Muna, mömmu Vöndu og Andra. Ég minnist þess ekki að hún hafi oft gefið sig á tal við mig en ætíð þegar ég mætti Dóru, brosti hún þessu einlæga og fallega brosi sem var töfrum líkast. Ég fæ enn hlýtt í hjartað þegar ég hugsa um þetta fallega bros sem fól í sér viðurkenningu, hlýju og góðvild.

Kári í sundlauginni er einn af þessum eftirminnilegu karakterum sem tók alltaf á móti okkur krökkunum með bros á vör og dassi af fíflaskap, og á ég þá ekki við að það hafi verið með neikvæðum hætti. Kári lagði sig fram við að læra nöfn allra barna sem komu til að svamla í lauginni og gaf óspart af sér til okkar. En ég ákvað að nefna þessa einstaklinga, að öðrum ólöstuðum til að leggja áherslu á meiningu mína og upplifun sem og ólíkar aðferðir þeirra til að veita litlu mér öryggi.

Eins langar mig að minnast á vináttu og kunningsskap sem haldist hefur í gegnum árin og ég vona að geri út lífið. Það eru nú liðin um 30 ár síðan ég flutti úr firðinum fagra og þó svo ég hafi ekki átt fjölskyldu þar í allan þennan tíma, hefur það ekki haft áhrif á ræturnar, því að vinir og kunningjar hafa hjálpað mér að rækta þær og næra með ýmsum hætti. Mínum bestu vinkonum kynntist ég á Króknum sem barn. Bekkjarsystur og -bræður í árgangi '77 eru mér afar kær og höfum við sem betur fer verið dugleg að halda sambandi og notið endurfunda reglulega. Það virðist vera sama hversu mörg ár líða á milli þess sem ég hitti æskufélagana, alltaf virðumst við geta sest niður og spjallað um heima og geima. Á undanförnum árum hef ég vanið komur mínar á Krókinn til þess að taka þátt í tónleikum er nefnast Græni salurinn, þá með hljómsveit sem eingöngu er skipuð Skagfirðingum. Hana skipa strákar sem ég þekkti í raun lítið sem ekkert er ég var að alast upp, en þekkjumst við vel í dag og eins má segja um fleiri Skagfirðinga sem ég var ekki náin þá, en við virðumst ná betri tengslum eftir því sem árin líða og bilið milli aldurshópa virðist á sama tíma minnka og nánast hverfa.

En það eitt að þekkja sögu hvers annars og rekast hvort á annað nánast daglega á götum úti í uppvextinum, myndar bönd sem við búum alltaf að. Það er eins og liðsheildin sé rótgróin í DNA okkar Skagfirðinga. Svo má ekki gleyma því að það er ekki síður fólkið sem hefur sig kannski ekki mikið í frammi svona dag frá degi, sem á stóran þátt í að skapa fegurðina innan samfélagsins, sem ég upplifði og upplifi enn að einkennist af samkennd, hlýhug, virðingu og vináttu. Svo sá ég líka sársauka, erfiðleika, vanlíðan og sorg, sem kenndi mér ekki síður margt. Það er svo fallegt að þegar við setjumst niður í amstri dagsins og lítum yfir farinn veg að okkar hjartfólgnustu minningar eru ekki mældar í fésbókarfærslum. Þær fela hvorki í sér samkeppni né samanburð og þær búa yfir einlægri tilfinningu sem engin getur tekið frá okkur. Þessar stundir sem færðu okkur nær þeim manneskjum sem við erum í dag og veittu okkur kannski hvað mestan innblástur. Þær stundir eigum við í skjóli hversdagsleikans. Í þessum litlu augnablikum þar sem hamingjan umvafði okkur og stundin var fullkomin.

Það er ótrúlega dýrmætt að hafa alist upp í slíku öryggi og við megum sannarlega teljast heppin með okkar litla samfélag sem hélt svona vel utan um okkur. Fólkið sem þar bjó og býr margt enn, minningarnar um þá sem hafa kvatt og áhrifin sem það hafði á okkur, fylgja okkur út lífið. Mér er í þessu samhengi oft hugsað til fólks sem hefur neyðst til að slíta rætur sínar vegna átaka og koma hér til lands í leit að skjóli. Eins fólks sem hefur vegna veikinda eða annara erfiðleika átt erfitt með að aðlagast sínu nánasta umhverfi og er einmana. Einstaklingar sem þrá ekkert heitar en að tilheyra samfélagi, þar sem þau geta sáð fræjum og blómstrað. Þar getum við öll lagt okkar að mörkum.

Tökum okkur til fyrirmyndar samfélagið sem hjálpaði okkur að vaxa og bauð okkur velkomin. Fólkið sem lét- okkur sig varða í hversdagsleikanum. Það þarf oft ekki meira til en nokkur orð, vinalegt augnaráð eða bros til þess að fólk nái að ganga til móts við nýjan og bjartari dag. Því það er engin mýta að bros getur dimmu í dagsljós breytt. Ég óska ykkur öllum velfarnaðar á nýju ári. Mægi gæska og gleði umvefja ykkur öll.

Með þakklæti, vinsemd og kærleika.
Valgerður Erlingsdóttir,  hugleiðing flutt á Skagfirðingamessu í Víðistaðakirkju.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir