Heildarorkukostnaður á Blönduósi og Skagaströnd hæstur á Norðurlandi vestra
Líkt og undanfarin ár hefur Byggðastofnun fengið Orkustofnun til að reikna út árlegan kostnað við raforkunotkun og húshitun á sömu fasteigninni á flestum þéttbýlisstöðum og í dreifbýli. Nú er komin út skýrsla um orkukostnað heimila miðað við gjaldskrár 1. september 2024. Alls eru 92 byggðakjarnar í greiningunni, þar á meðal Hvammstangi, Blönduós og Skagaströnd, og ná tölur fyrir þá aftur til ársins 2014. Samhliða skýrslunni kemur út mælaborð þar sem hægt er að skoða orkukostnað í byggðakjörnum á Íslandskorti, skoða raforku- og húshitunarkostnað sér og bæta við útreikningi fyrir varmadælu fyrir staði með beina rafhitun, segir á huni.is.
Viðmiðunareignin í skýrslunni er einbýlishús, 140 m² að grunnfleti og 350m³. Almenn raforkunotkun er sú raforka sem er notuð í annað en að hita upp húsnæði, s.s. ljós og heimilistæki, en miðað er við 4.500 kWst í almennri rafmagnsnotkun og 28.400 kWst við húshitun án varmadælu en 14.200 kWst með varmadælu.
Í skýrslunni kemur fram að lægsta mögulega raforkuverð fyrir viðmiðunareignina, með flutnings- og dreifingarkostnaði, fæst hjá Veitum á höfuðborgarsvæðinu og á Akranesi, um 99 þ.kr. Hæsta gjald í skilgreindu þéttbýli er um 119 þ.kr. hjá Orkubúi Vestfjarða en raforkuverð eru hærri í dreifbýli, hjá RARIK og Orkubúi Vestfjarða, eða um 136-141 þ.kr. á ári fyrir viðmiðunareign.
Á Norðurlandi vestra eru allir byggðakjarnarnir í greiningunni með hitaveitu og húshitunarkostnaður er sambærilegur því sem var fyrir áratug síðan. Hæsti húshitunarkostnaður í þéttbýli á Norðurlandi vestra er hjá hitaveitum RARIK á Blönduósi og Skagaströnd 213 þ.kr. Á Hvammstanga er Hitaveita Húnaþings vestra en þar er húshitunarkostnaður viðmiðunareignar 125 þ.kr. Lægsti húshitunarkostnaður á Norðurlandi vestra er hjá Skagafjarðarveitum, í Varmahlíð, á Hofsósi og Hólum um 110 þ.kr. og Sauðárkróki 114 þ.kr.
Á Norðurlandi vestra er heildarorkukostnaður viðmiðunareignar hæstur á Blönduósi og Skagaströnd 324 þ.kr. Á Hvammstanga er heildarorkukostnaður viðmiðunareignar 236 þ.kr. og á Sauðárkróki 226 þ.kr
Nánari upplýsingar má sjá í meðfylgjandi skýrslu og á vef Byggðastofnunar.
frétt tekin af huni.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.