feykir.is
Skagafjörður, Mannlíf
15.06.2017
kl. 16.40
Jónsmessuhátíðin á Hofsósi hefst á morgun og eru íbúar nú á fullu að skreyta og gera sig klára til að taka á móti gestum. Fyrsti liðurinn á dagskrá hátíðarinnar er Jónsmessugangan sem ætíð hefur notið mikilla vinsælda. Gönguleiðin að þessu sinni er frá Kjaftamel í Stafshólslandi, um Axlarveg sem er gamall vegur og reiðleið, yfir í Tumabrekkuland og meðfram Miðhúsagerði uns komið er niður á Siglufjarðarveg rétt norðan við Miðhús í Óslandshlíð. Meðal þess sem fyrir augun ber er malarhóllinn Hastur þaðan sem er mjög fallegt útsýni. Segir sagan að þaðan hafi Grettir Ásmundsson borið stóra steininn, eða Grettistakið, sem stendur í Grafaránni, rétt við við Grafarós, og blasir við frá þjóðveginum. Sigrún Fossberg, fararstjóri í göngunni, segir að gangan sé létt, meira og minna niður í móti þar sem fólki gefist færi á að njóta fallegrar náttúru með miklu útsýni og fjölbreyttu fuglalífi. Jónsmessugangan hefst klukkan 18:00 og verður fólki ekið á upphafsreit með rútu.
Meira