Hellisbúinn í Varmahlíð - „Ófá samböndin sem hafa styrkst eftir sýninguna“
Í kvöld, föstudaginn 2. mars nk. klukkan 20:00, ætlar Hellisbúinn að stíga á stokk í Menningarhúsinu Miðgarði í Varmahlíð en um er að ræða einn vinsælasta einleik sem sýndur hefur verið í veröldinni. Hefur Hellisbúinn þegar verið sýndur í 52 löndum, í yfir 1000 borgum og frá upphafi hafa tugir milljóna um allan heim séð sýninguna, í túlkun ýmissa leikara.
Til marks um vinsældir verksins er þetta í þriðja sinn sem það er sett upp á Íslandi og ein mest sótta leiksýning landsins. Yfir 105 þúsund Íslendingar hafa hlegið, grátið, og fengið ódýra hjónabandsráðgjöf hjá Hellisbúanum, segir í kynningu. Hann hefur þróast mikið með breyttum tímum og er nú orðinn þrælkunnugur hinum ýmsu öppum sem standa mönnum til boða við hin ýmsu tækifæri.
Sá sem fer með hlutverk hellisbúans er hinn geðþekki Jóel Sæmundsson en hann kannast Skagfirðingar við sem leikstjóra tveggja leikrita Leikfélags Sauðárkróks, Beint í æð sl. Sæluviku og Rjúkandi ráð árið 2014.
„Hellisbúinn er bara maður sem er að reyna átta sig á af hverju þessi togstreita er á milli karla og kvenna, sjá muninn á kynjunum í spaugilegu ljósi og er ekkert að taka sig of alvarlega,“ segir Jóel og leggur áherslu á að þetta sé alls ekki bara fyrir karla. „Þvert á móti. Þetta er frábært fyrir okkur öll, og ófá samböndin sem hafa styrkst eftir sýninguna. Skilningur okkar á hvert öðru eykst.“
En er eitthvert vit í því að setja Hellisbúann upp á ný? „Sko, Ég segi að sjaldan hefur hellisbúinn átt jafn mikið erindi og akkúrat núna í öllu þessu sem er í gangi. Ég vona bara að ég sjái sem flesta. Ég hef fengið leikstýra tveimur skemmtilegum försum á Sauðárkróki og núna fæ ég sjálfur að sýna mjög skemmtilegan einleik með mínu „twisti“ á honum. Enda er þessi útgáfa töluvert frábrugðin hinum sem hafa verið sett upp,“ segir Jóel í lokin.
Miðasala fer fram á Miði.is og kostar miðinn 4.490 kr. en hópabókanir, 10 eða fleiri, fer fram á hopar@theatermogul.com.
Áður birst í 8. tbl. Feykis 2018
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.