Fréttir

Stólarnir mæta liði Grindavíkur í úrslitakeppninni

Það voru margir með böggum hildar í dag og í kvöld á meðan beðið var eftir úrslitum í lokaumferð Subway-deildar karla í körfubolta. Lið Tindastóls og Stjörnunnar börðust um að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni og reikna mátti með að bæði lið sigruðu í sínum viðureignum gegn neðstu tveimur liðum deildarinnar. Öllu máli skipti því hvernig leikur Álftaness og Hattar færi því ljóst var að ynni Höttur færu Stólarnir í sumarfrí en ef Álftanes hefði sigur þá yrði lið Tindastóls í sjöunda sæti og fengi tækifæri til að sýna sparihliðarnar í úrslitakeppninni.
Meira

„Algjör árshátíð okkar vinanna“

Skagfirðingar stimpla sig rækilega inn í menningarlíf Reykvíkinga þessa komandi helgi. Geirmundur Valtýsson heldur upp á 80 ára afmælið með tvennum tónleikum í Hörpu á laugardag en kvöldið áður verða félagarnir Arnar Freyr Frostason og Helgi Sæmundur Guðmundsson, Úlfur Úlfur, með útgáfutónleika í Gamla bíói en það er víst löngu uppselt á þá. Fyrsta viðtalið við þá félaga var í Feyki 25. ágúst 2011 og það ár kom út platan Föstudagurinn langi sem innihélt smelli á borð við Ég er farinn og Á meðan ég er ungur. Þeir slógu síðan algjörlega í gegn með plötunni Tvær plánetur þar sem mátti finna Brennum allt og 100.000. Restin er saga. Feykir sendi nokkrar spurningar á Helga Sæmund í tilefni af tónleikunum nú rétt fyrir páska.
Meira

Heima í stofu á Sauðárkróki

Viðburðarséni okkar Skagfirðinga, Áskell Heiðar Ásgeirsson, stendur nú, ekki í fyrsta skipti, fyrir nýung í tónleikahaldi á Sauðárkróki í komandi Sæluviku. Um er að ræða svokallaða heimatónleika.
Meira

Leikirnir sem öllu ráða eru í kvöld!

Oft var þörf en nú er nauðsyn- að mæta í Síkið, spurning hvort þeir sem eru sunnan heiða skelli sér og hvetji Álftanes til sigurs í kvöld því ekki dugar fyrir Tindastól að vinna Hamar í kvöld til þess að komast í úrslitakeppnina í þessari síðustu umferð í deildarkeppni vetrarins.
Meira

Gyrðir sýnir einstök myndverk í Garðinum

Gyrðir Elíasson heldur sýningu á myndverkum sínum þrjár helgar í apríl en sýningin, sem hann kallar Undir stækkunargleri, er til húsa að Sunnubraut 4 (2. hæð) í Garðinum í Suðurnesjabæ. Fyrsti sýningardagurinn er nú á laugardag en opið verður frá kl. 13–17 laugardaga og sunnudaga. Áhugasamir mega gera ráð fyrir því að það taki svolítinn tíma að skoða sýninguna þar sem verkin eru um 1.200 talsins.
Meira

Morðin á Sjöundá og Illugastöðum

Út er komin bókin Þessi frægu glæpamál: Morðin á Sjöundá og Illugastöðum. Það eru Már Jónsson, prófessor í sagnfræði við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði HÍ og Jón Torfason, fyrrverandi skjalavörður á Þjóðskjalasafni Íslands sem rita ítarlegan inngang og tóku saman heimildir sem eru gefnar út í heild sinni í fyrsta sinn í þessari bók. Útgefendur eru Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar og Háskólaútgáfan.
Meira

Ásta Guðný sigraði fullorðinsflokk Smalans

Smalinn, lokamótið í Vetrarmótaröð Hestamannafélagsins Þyts, var haldinn laugardagskvöldið 30. mars sl. Keppt var í polla-, barna-, unglinga- og fullorðinsflokki. Tveir pollar mættu til leiks og stóðu sig auðvitað vel, en það voru þau Margrét Þóra Friðriksdóttir Líndal og Draumur frá Hvammstanga og Sólon Helgi Ragnarsson á Vídalín frá Grafarkoti.
Meira

Verðlaunahafar í Skagfirskri sauðfjárrækt

Á aðalfundi félags sauðfjárbænda í Skagafirði sem fram fór á Löngumýri 25.mars síðastliðinn voru afhent verðlaun í nokkrum flokkum samkvæmt venju fyrir framleiðsluárið 2023. Hér fyrir neðan má sjá verðlaunaflokka og niðurstöður. 
Meira

Töluverð hætta á snjóflóðum á Tröllaskaga

Í tilkynningu á vef Björgunarsveitarinnar Grettis á Hofsósi er sagt að það sé varasamt að fara um Tröllaskagann núna. Ástæðan er snjóflóðahætta en um hádegisbilið í gær féll 240 metra breitt flóð í Deildardal, austan Hofsóss, skammt frá bænum Kambi. Féll það yfir veginn, ána og brúna.
Meira

Öruggur sigur og fjórða sætið varð Stólastúlkna

Það varð ljóst eftir leiki gærkvöldsins í 1. deild kvenna í körfunni að það er lið Snæfells sem Stólastúlkur mæta í úrslitakeppninni. Fyrsti leikur liðanna verður í Stykkishólmi næstkomandi sunnudagskvöld en heimaleikur í Síkinu miðvikudaginn 10. apríl en vinna þarf þrjá leiki til að komast í úrslitaeinvígið. Í gærkvöldi kláraði lið Tindastóls sinn leik gegn b-liði Keflavíkur af miklu öryggi í lokaumferð deildarkeppninnar en lokatölur urðu 81-43. Þetta er í fyrsta sinn á þessari öld sem kvennalið Tindastóls kemst í úrslitakeppni um sæti í efstu deild.
Meira