Una Karen í 2. sæti á Íslandsmóti unglinga í höggleik

Una Karen Guðmundsdóttir. Mynd snippuð af golf.is. Aðrar myndir eru teknar af golf.is
Una Karen Guðmundsdóttir. Mynd snippuð af golf.is. Aðrar myndir eru teknar af golf.is

Um sl. helgi fór fram Íslandsmót unglinga í höggleik og var leikið á Nesvelli hjá Golfklúbbnum Ness á Seltjarnarnesi fyrir keppendur 14 ára og yngri og fyrir keppendur 15-18 ára var keppt á Hlíðavelli hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar. Golfklúbbur Skagafjarðar átti nokkra flotta fulltrúa á báðum völlum en það sem stóð upp úr eftir helgina var að Una Karen Guðmundsdóttir gerði sér lítið fyrir og varð í 2. sæti í sínum flokki, frábær árangur.

Aðrir fulltrúar voru félaginu einnig til sóma en þeir Brynjar Morgan Brynjarsson og Sigurbjörn Darri Pétursson kepptu í flokki 12 ára og yngri drengja. Þar spiluðu þeir 9 holur þrjá daga í röð og endaði Brynjar Morgan í 5.-7. sæti með 135 högg og Sigurbjörn Darri í 21.-23. sæti með 150 högg.

Í flokki 13-14 ára stúlkna var það Gígja Rós Bjarnadóttir sem spilaði fyrir hönd GSS en hún endaði í 7. sæti af 14 keppendum með 289 högg eftir að hafa spilað 18 holur þrjá daga í röð. Þessir krakkar eiga mikið hrós skilið fyrir frammistöðu sína á þessu móti því þó Króksarar séu vanir roki þá voru aðstæður á Nesvelli þessa helgina vægast sagt slæmar því mikill vindur og kuldi var alla keppnisdagana.

Í flokki 15-16 ára stúlkna keppti Dagbjört Sísí Einarsdóttir og í hópi 17-18 ára drengja var það Tómas Bjarki Guðmundsson sem voru fulltrúar GSS á Hlíðavelli í Mosó. Þá var Una Karen Guðmundsdóttir einnig á ferðinni en hún keppti í þetta skipti fyrir hönd GKG í flokki 17-18 ára stúlkna en hún er og verður alltaf hluti af GSS þó svo að hún keppi ekki undir GSS merkinu. Una hefur lagt mikinn metnað í æfingar sl. vetur þar sem hún flutti suður fyrir ári síðan og er að uppskera flottan árangur fyrir vikið. Dagbjört Sísí, Tómas Bjarki og Una Karen spiluðu einnig 18 holur þrjá daga í röð og endaði Dagbjört Sísí í 10.-11. sæti með 249 högg. Tómas Bjarki endaði í 20. sæti með 252 högg og Una Karen var með 229 högg sem skilaði henni 2. sætinu í sínum flokki.

Feykir óskar krökkunum til hamingju með frábæran árangur.

Áfram GSS

 

Gígja ásamt móður sinni  - Brynjar Morgan að fylgjast með boltanum eftir upphafshögg

   

Sigurbjörn að fylgjast með meðspilara taka pútt - Dagbjört Sísi í miðjunni með meðspilurum úr einu af hollum helgarinnar

Una Karen með verðlaunahöfum í sínum flokki - Tómas Bjarki t.v. með meðspilurum úr einu af hollum helgarinnar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir