Það helsta um ræktun riðuþols - allt á einum stað
Áfram heldur Karólína Elísaetardóttir í Hvammshlíð að auðvelda okkur lífið í baráttunni við riðu. Til þessa voru upplýsingar um riðuvarnir dreifðar víða og það þoldi Karólína illa.– Sumt fannst hjá MAST, annað hjá RML, svo voru alls konar erlendar vísindagreinar, reglugerðir og ekki síst stakar greinar í Bændablaðinu. Núna er hægt að nálgast upplýsingarnar allar á einum stað riduvarnir.is og ridaneitakk.net
Karólína Elísabetardóttir í Hvammshlíð, frumkvöðull í riðumálum, uppgötvaði í samtali við bændur og aðra að ennþá vantar oft þekkingu – um tæknileg smáatriði, en einnig um grundvallaratriði, til dæmis um þol og næmi breytileika sem heita ekki ARR. „Það kom mér á óvart – þónokkrir vissu til dæmis ekki að T137 sé mjög vel rannsakaður breytileiki, sem miklar vonir eru bundnar við. Aðrir höfðu ekki hugmynd um að í riðuhólfum þurfi að sækja árlega um söluleyfi. Og sumir héldu að í forystufé hafi aldrei neitt fundist nema mjög næmar arfgerðir – sem er alls ekki rétt.“
Þess vegna ákvað hún á eigin spýtur að setja á fót heimasíðu sem sameinar allar helstu upplýsingar og tengir þær líka við gögn á öðrum síðum, t.d. MAST og RML. Vefföng síðunnar eru riduvarnir.is og ridaneitakk.net. Hún sótti um styrk, en vildi samt ekki bíða hvort hann kæmi: „Fólk er að pæla í því einmitt núna. Ef ég hefði beðið, þá hefði það verið of seint. Þá eru lömbin komin frá fjalli, allir á fullu í ýmsu. En sérstaklega þetta haust skiptir miklu máli varðandi framhaldið – hvaða lömb eru sett á, hverjir breytileikar eru teknir alvarlega og hverjir detta út.“
Þótt riduvarnir.is sé einkaframtak, hafði Karólína samband við MAST, RML, Keldur og sauðfjárbændadeild BÍ til að gefa kost á athugasemdum og breytingaróskum, áður en síðan birtist opinberlega. Svo er líka alltaf hægt að breyta einhverju eftirá, ólíkt bók, sem fer í prentun – „sem er mikill kostur, því margt er að breytast hratt í þessum málum“, segir Karólína.
Þekking er undirstaða markvissrar ræktun – ekki síst ef bóndinn vill byggja upp riðuþol á erfðafræðilega breiðum grunni. „Íslenski sauðfjárstofninn er einstaklega fjölbreyttur – í útlöndum eru svoleiðis kyn í útrýmingarhættu og margir öfunda okkur af þessum gamalgróna, hrausta og litríka stofni, sem er á sama tíma afurðarmestur í heiminum“, undirstrikar Karólína. „Við megum ekki missa þennan fjölbreytileika, hann kemur ekki aftur. Þess vegna er tilvalið að nýta sér þekkingu alþjóðlegra vísindamanna, sem hafa rannsakað riðu í marga áratugi. Þeir mæla eindregið með því að stóla ekki eingöngu á ARR.“ Heimasíðan svarar öllum helstu spurningum að mati Karólínu – ef ekki, þá má hafa samband við hana: „Það er alltaf hægt að bæta og breyta!“ segir Karólína að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.