Tveir Húnvetningar syngja í Söngvakeppni Sjónvarpsins
Sönghópurinn Fókus flytur eitt af tólf lögum sem hafa verið valin til þátttöku í Söngvakeppninni 2018. Í sönghópnum eru tveir Húnvetningar þau Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir frá Dæli í Víðidal og Sigurjón Örn Böðvarsson sem bjó mörg ár á Blönduósi sem barn. Fókus stígur á stokk í fyrri undanúrslitum sem fram fara í Háskólabíói næsta laugardag.
Fókus er sönghópur sem samanstendur af fimm söngvurum sem allir kynntust í hæfileikaþættinum The Voice Ísland sem sýndur var í Sjónvarpi Símans. Hópinn skipa, auk Hrafnhildar og Sigurjóns, þau Eiríkur Hafdal, Karitas Harpa og Rósa Björg. Að sögn Hrafnhildar hefur hópurinn starfað saman í rétt tæpt ár og komið fram hér og þar um landið.
Hún segir að Sigurjón og Rósa hafi tekið þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins í fyrra, sem dansandi bakraddir, og þar kynntust þau Michael James Down og varð úr að þau sömdu lagið saman ásamt Primoz Poglajen. Höfundar texta eru þau Þórunn Erna Clausen og Jonas Gladnikoff.
Hrafnhildur hefur ekki keppt áður í Söngvakeppni Sjónvarpsins en segist mikil áhugakona um Eurovision og á æskudraum um að taka þátt.
„Við erum gríðarlega spennt fyrir því að taka þátt í keppninni. Þar sem undanúrslitin eru hrein símakosning treystum við á okkar bakland að koma okkur í úrslitaþáttinn,“ segir Hrafnhildur og bendir á að hægt sé að finna sönghópinn á Facebook sem Fókus (@fokushopurinn), á Instagram og Snapchat sem fokushopurinn.
Rúmlega 200 lög bárust í keppnina sem verður með svipuðu sniði og í fyrra. Hægt er að hlusta á íslenskar og enskar útgáfur laganna á Söngvakeppnin.is en lögin verða líka aðgengileg á Youtube, Spotify og Tónlist.is.
HÉR er hægt að nálgast lag Fókushópsins á íslensku.
Undanúrslitin fara fram í Háskólabíói, laugardagana 10. og 17. febrúar. Úrslitakvöldið verður haldið með pompi og prakt í Laugardalshöll 3. mars en, eins og sl. ár mun erlend Eurovision-stjarna stíga þar á svið. Keppnirnar þrjár verða sýndar í beinni útsendingu á RÚV.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.