Spennandi matarhátíð á Norðurlandi vestra
Næstkomandi föstudag hefst í fyrsta skiptið matarhátíð sem kallast Réttir - Food Festival og fer fram á ýmsum stöðum á Norðurlandi vestra. Gestum verður boðið upp á skemmtilega upplifun og fræðslu um mat og menningu á svæðinu. Fjölmargar uppákomur verða þá tíu daga sem hátíðin stendur, allt frá Laugarbakka í Miðfirði, út í Fljót í Skagafirði. Veitingahúsaeigendur og framleiðendur á svæðinu standa að hátíðinni en Þórhildur María Jónsdóttir, umsjónarmaður Vörusmiðju BioPol á Skagaströnd, er í forsvari. Feykir leitaði til hennar með nokkrar spurningar varðandi hátíðina.
„Með Réttir food festival langar okkur að beina sviðsljósinu að öllum þeim kræsingum, sem framleiðendur og veitingamenn á Norðurlandi vestra eru að töfra fram hér árið um kring. Þetta langar okkur að kynna fyrir gestum svæðisins og ekki síður heimafólkinu,“ segir Þórhildur. Þema hátíðarinnar og aðalinntakið er að vörurnar séu framleiddar og/eða framreiddar á Norðurlandi vestra en með því kynnast gestir allri gróskunni í matvælaframleiðslu svæðisins, gömlum hefðum hennar en einnig framsæknum nýjungum.
„Þetta er samstarfsverkefni Ferðamálafélaganna þriggja í Húnaþingi vestra, A-Hún. og Skagafirði og hlaut það styrk úr Uppbyggingarsjóði sóknaráætlunar landshlutans. En svo eru það auðvitað veitingastaðirnir og framleiðendurnir, sem með sínum fjölbreyttu viðburðum bera matarhátíðina uppi þegar á hólminn er komið,“ segir Þórhildur.
Inni á heimasíðunni rettir.is eru viðburðum raðað eftir tímasetningu og þar geta gestir fengið nánari upplýsingar og bókað sig inn á viðburðina á einfaldan hátt. Þórhildur segir verðlagningu mjög hóflega og jafnvel nokkrir viðburðir fólki að kostnaðarlausu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.