Skemmtileg ferð til Danmerkur - Skólaferðalag 10. bekkjar Árskóla
Þann 14. maí fór 10. bekkur Árskóla í sitt árlega skólaferðalag til Danmerkur. Við lögðum snemma af stað og keyrðum suður til Keflavíkur og þaðan beinustu leið til Danmerkur. Frá flugvellinum keyrðum við í vinaskóla okkar, Højelse skole, og hittum 8. bekk þar og var okkur skipt niður í gistihópa því við gistum á heimilum þeirra.
Snemma næsta morgun var lagt af stað í skólann þar sem vel var tekið á móti okkur, við vorum spurð spurninga um Ísland og okkur sýndur skólinn. Síðan var spilaður landsleikur í bandí. Ekki voru allir sammála hvernig leikurinn endaði, sumir sögðu að hann hafi verið jafn 5:5 en aðrir vilja halda því fram að hann hafi endað 5:4 fyrir Íslandi.
Fórum við svo í göngutúr í gegnum Åsenskóg og enduðum í bænum Køge sem er vinabær Skagafjarðar. Þar var labbað í gegnum bæinn og skoðað elsta torg í Danmörku, farið í búðir og mannlífið tekið inn. Síðan fóru gistihóparnir sinn í hverja áttina og gerðu eitthvað skemmtilegt saman, til dæmis farið í keilu, skellt sér á ströndina og stunduð bogfimi. Að kvöldi sama dags var ball í skólanum og svo haldið heim.
Á miðvikudeginum var haldið til höfuðborgarinnar og hún skoðuð í bak og fyrir og Litla hafmeyjan og Amalíuborg stóðu sérstaklega upp úr. Síðan var farið á Strikið og vappað þar um og verslað í nokkra tíma. Eftir það forum við í Tívolí og var það mjög gaman enda margt að gera.
Á fimmtudeginum kvöddum við Danverjana og keyrðum svo aftur til Kaupmannahafnar og fórum í dýragarðinn þar, og sáum mörg falleg dýr og enn fleiri skrýtin. Eftir það höfðum við fengið nóg af Danmörku svo við keyrðum yfir til Svíþjóðar og stimpluðum okkur inn á farfuglaheimili í Malmö. Var okkur sleppt lausum í búðir þar í smá stund. Síðar um kvöldið fórum við öll í lazer tag og prison escape, og eftir það voru allir útkeyrðir eftir hasarinn svo haldið var heim.
Og síðast á föstudeginum var okkur aftur sleppt lausum en nú í lengri tíma, var margt gert eins og til dæmis fóru sumir á skriðdýrasafn eða hjólabáta en samt fóru flestir bara að versla. Síðan var haldið heim á leið og var flogið um 9 leytið og lent um 12. Sváfu flestir á leiðinni heim enda þreyttir eftir langa en skemmtilega ferð. Komum við aftur heim á Krókinn um 6 leytið og voru allir orðnir vel syfjaðir.
Myndirnar hér fyrir neðan tók Sylvía Dögg Gunnarsdóttir.
/Eymundur Ás Þórarinsson
Höfundur var í starfskynningu hjá Feyki í dag og í gær og fékk það hlutverk að skrifa ferðasöguna.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.