Pure Natura stefnir á að koma með vörulínu á markað í nóvember
Hildur Þóra Magnúsdóttir á Ríp í Hegranesi stofnaði í september sl. fyrirtækið Pure Natura sem hyggst framleiða náttúruleg bætiefni og heilsuvörur. Hráefnið eru ýmsar aukaafurðir sem falla til við sauðfjárslátrun og íslenskar jurtir. Hugmyndin kviknaði fyrir um það bil þremur árum þegar hún sótti námskeið þar sem fram kom að heilsuvörur framleiddar úr þurrkuðum skjaldkirtlum sláturdýra gæfust vel fyrir fólk sem glímir við vanvirkni í skjaldkirtli.
Hildur Þóra segist hafa ákveðið að taka verkefnið lengra þegar samkeppnin Ræsing í Skagafirði var auglýst haustið 2014, en þar var keppt um góðar viðskiptahugmyndir. Hlaut verkefni Hildar, ásamt Fibra húsum, fyrsta sætið í keppninni. Verðlaunaféð var ein milljón króna og síðan hefur verkefnið hlotið frekari styrki, m.a. til vöruþróunar.
Upphaflega hugmyndin hefur undið mikið upp á sig og Hildur fengið til liðs við sig þær Sigríði Ævarsdóttur og Rúna Kristínu Sigurðardóttur, sem eru meðeigendur í Pure Natura. Þær stöllur hafa nú undirbúið framleiðslu á níu vörutegundum og stefna á að koma með vörulínu á markað í nóvember. Rætt er við Hildi Þóru í opnuviðtali í 19. tölublaði Feykis sem kom út í gær.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.