Pínu rosalega gaman - Ágúst Ingi, trommari DDT skordýraeiturs, í viðtali
Nú á föstudagskvöldið verða haldnir dúndurtónleikar í Bifröst þegar pönksveitin DDT skordýraeitur og Tríó Pilla Prakkó leiða saman trunturnar sínar, eins og segir í kynningu. Tríóið þarf ekki um langan veg að fara en pönkararnir koma hins vegar alla leið frá Neskaupstað og innan raða bandsins er Króksarinn Ágúst Ingi Ágústsson sem brást vel við beiðni Feykis um að svara nokkrum spurningum. Pilli Prakkó brást hins vegar illa við, svaraði fáu og reyndar hafði hann þetta eina að segja: „Ég er hundfúll yfir því að það kosti bara 2000 kall inn. Ég vildi að það kostaði 7000! Þetta eru kveðjutónleikarnir mínir.“
Hljómsveitin DDT skordýraeitur var stofnuð haustið 2015 í Neskaupstað af fjórum kennurum Verkmenntaskóla Austurlands. Hljómsveitin er afsprengi annarar hljómsveitar við skólann sem hét Doddi og draumaprinsarnir en sú hljómsveit kom saman snemma hausts 2015. „Eftir þann hitting langaði nokkra kennara að spila meira og hittust reglulega í kjölfarið, úr varð pönksveitin DDT skordýraeitur,“ segir trymbillinn Ágúst Ingi en auk hans skipa þeir Arnar Guðmundsson söngur og gítar, Pjetur St. Arason gítar og söngur og Þorvarður Sigurbjörnsson bassi og söngur, sveitina. „Upphafleg geta og hæfileikar þessara fjögurra leiddu til þess að bandið spilar aðallega frumsamið gleðipönk, þar sem stutt, hröð og rammpólitísk lög ráða ríkjum.“
Ágúst segir bandið hafa reynt að troða upp sem mest síðan það var stofnað enda njóti þeir góðs af því að Neskaupstaður er mikill tónlistarbær. „Höfum við t.a.m. komið fram á þungarokkshátíðinni Eistnaflugi síðan 2016 bæði á litlum og stórum sviðum. Svo höfum við verið duglegir að halda tónleika í Neskaupstað, stundum óbeðnir. Einnig höfum við spilað á jólatónleikum á Egilstöðum og 17. júní hátíð Fjarðabyggðar á Breiðdalsvík 2018 þegar Breiðdælingar voru boðnir formlega velkomnir í sveitarfélagið.“
Hljómsveitin gaf út fimm laga EP plötu sem kom út á aðventunni 2017 sem bar nafnið Aleppo og má finna hana á tónlistarveitunni Spotify. Nú í nóvember kemur svo út 15-16 laga plata sem verður væntanlega í flestum jólapökkum í ár.
Ágúst segir tónlistarferilinn hafa byrjað snemma þegar hann prófaði fyrst að tromma í bílskúrnum í Fellstúni 5 en þar var trommusett sem faðir hans átti, en sá hafði svolítið fitlað við kjuðanna og kenndi drengnum fyrstu trixin. Ágúst Ingi og Sveinn Guðmundsson nágranni hans í Fellstúninu spiluðu síðan ábreiður af Nirvana lögum á unglingsárum, en Sveinn hafði eignast bók með gítarhljómum amerísku sveitarinnar. „Síðan lá trommuleikurinn niðri í allmörg ár þangað til ég flutti til Neskaupstaðar og sagðist kunna að tromma og komst í kennaraband VA, sem eins og áður sagði er fyrirrennari DDT. Getan var nú ekki mikil fyrst um sinn, en eftir nám í tónlistarskóla getur trommarinn Ágúst Ingi ágætlega haldið takti og tempói,“ segir hann.
Hvernig kemur það til að DDT kemur á Sauðárkrók?
„Við vorum beðnir um að spila á Græna hattinum fimmtudaginn 10. október á tónleikum til styrktar Grófinni geðverndarmiðstöð. Þar sem við vorum bókaðir á Norðurlandinu ákváðum við að kanna möguleikann á því að spila á Sauðárkróki. Erum við aðdáendur hljómsveitarinnar Pilla Prakkó og settum okkur í samband við þá og viðruðum þá hugmynd að halda tónleika saman. Það stóð ekki á þeirri hljómsveit enda spilaþyrstir eins og við og blása því böndin til tónleika í Bifröst föstudaginn 11. október. Verður gaman fyrir móður trommarans í DDT að sjá drenginn sinn spila. Þetta gæti orðið svolítið villt þó snyrtimennskan verði í fyrirrúmi. Allavega er hægt að lofa hröðu og taktföstu gleðipönki þar sem feilnótur slá fáa út af laginu ásamt vandaðra efni. Markmið DDT Skordýraeiturs hefur alltaf verið að skemmta sjálfum sér og áhorfendum um leið,“ Ágúst sem hvetur Króksara og nærsveitunga til þess að flykkjast í Bifröst á þennan menningarviðburð. „Ekki á hverjum degi að pönkhljómsveit skipuð mismiðaldra körlum kemur í bæinn með frumsamið efni. Þetta verður pínu rosalega gaman.“
Þess má geta að forsala aðgöngumiða er hafin en hægt er að panta á pilliprakko@gmail.com eða hafa samband við Palla Friðriks hvar sem til hans mæst. Miðaverð 2000. Enginn posi bara grjótharðir seðlar. Á tónleikunum verður söfnunarkassi fyrir gott málefni og upplagt að hafa með sér heilu seðlabúntin.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.