Nýr snjótroðari afhentur formlega

Mynd 1: Nýi troðarinn afhentur að Covidskum hætti. Frá vinstri: Sveitarstjórnarfulltrúarnir Bjarni Jónsson, Gísli Sigurðsson og Stefán Vagn Stefánsson, Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Viggó Jónsson frá Rafstillingu ehf. Myndir:FE
Mynd 1: Nýi troðarinn afhentur að Covidskum hætti. Frá vinstri: Sveitarstjórnarfulltrúarnir Bjarni Jónsson, Gísli Sigurðsson og Stefán Vagn Stefánsson, Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Viggó Jónsson frá Rafstillingu ehf. Myndir:FE

Skíðasvæðinu í Tindastóli barst öflugur liðsauki síðastliðinn mánudag þegar nýr snjótroðari var afhentur formlega. Það var Viggó Jónsson frá fyrirtækinu Rafstillingu ehf. sem afhenti sveitarstjórn nýja troðarann og var það Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar, sem tók við lyklunum.

Nýi snjótroðarinn er af gerðinni Prinuth Leitwolf, árgerð 2011, og er vélarstærð hans um 500 hestöfl. Hann er ekinn um 5000 tíma og 600 tíma á spili og er allur yfirfarinn og skoðaður hjá verksmiðjunum á Ítalíu þaðan sem hann kemur. Það er fyrirtækið Rafstilling ehf. sem flytur inn troðarann en fyrirtækið hefur umboð fyrir skíðalyftur og snjótroðara.

Nýi snjótroðarinn leysir af hólmi annan eldri, sömu tegundar sem keyptur var árið 1997 og er því kominn til ára sinna eftir dygga og farsæla þjónustu í fjallinu. Sigurður Hauksson, umsjónarmaður skíðasvæðisins, segir kosti nýja troðarans ótvíræða en með tilkomu hans helmingast sá tími sem tekur að troða brekkurnar svo og olíukostnaður, auk þess sem hann er mun betra og öruggara vinnutæki. Það er nýjung í Tindastólnum að vera með snjótroðara með spili en það gerir það að verkum að mun fljótlegra er að troða brekkurnar og auðveldar það verk mjög, auk þess sem þessi troðari kemst þar um brattlendi sem gamli troðarinn á enga möguleika á að troða.

Að sögn Sigurðar hefur það verið mikið kappsmál að fá þetta nýja tæki fyrir veturinn og hefur verið unnið að því hörðum höndum. Vill hann koma á framfæri kærum þökkum til sveitarfélagsins fyrir stuðninginn við skíðasvæðið sem hefur gert þetta að veruleika.

Það sem af er vetri hafa skíðabrekkurnar ekki verið opnar almenningi en æfingar hjá skíðadeild Tindastóls hafa verið í gangi og eru að hefjast að nýju eftir jólafrí. Sigurður segir ánægjulegt að þar hafi nýir iðkendur verið að koma inn og eru skráningar í gangi. Einnig hefur verið góð aðsókn á gönguskíðasvæðið það sem af er vetri. Hann lítur björtum augum til vetrarins og vonast til að hægt verði að opna svæðið fljótlega en það er að sjálfsögðu bundið við sóttvarnarreglur vegna COVID-19. 

 

(Í myndatexta á forsíðu nýjasta tölublað Feykis víxluðust nöfn þeirra Gísla Sigurðssonar og Stefáns Vagns Stefánssonar. Beðið er velvirðingar á því).

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir