Takk fyrir okkur Norðurland vestra | María Rut Kristinsdóttir skrifar

María Rut Kristinsdóttir, þingmaður Viðreisnar. AÐSENDAR MYNDIR
María Rut Kristinsdóttir, þingmaður Viðreisnar. AÐSENDAR MYNDIR

Vetur konungur fer brátt að kveðja þó að snjó kyngi enn niður og hylur holur í vegum víða um land. Við urðum þess vör í liðinni viku þegar nýr og stærri þingflokkur Viðreisnar lagði land undir fót í rútu um Norðvesturkjördæmi. Við höfðum það að leiðarljósi að hlusta á landsmenn, eiga samtal í augnhæð og kynnast því sem liggur fólki á hjarta.

---

Norðvesturkjördæmi er stórt og fjölbreytt svæði og það gefur því auga leið að hagsmunir eru ólíkir á milli svæða. Þó er margt sem við heyrðum endurtekið sama hvar við drápum niður fæti, hvort sem það var á Hvammstanga, Laugarbakka, í Skagafirði, Dölunum, á Snæfellsnesi, Akranesi eða Borgarnesi. Vegamál, innviðaskuld, orkumál, landbúnaður, sjávarútvegur og hvernig við fáum fólkið okkar aftur heim í byggð.

---

Á Hvammstanga áttum við góðan fund með sveitarstjórnarfulltrúum um uppbyggingu á svæðinu en þar eru uppi gríðarlega spennandi áform sem samfélagið tekur virkan þátt í. Fulltrúar Viðreisnar fóru í Skagafjörð til að kynna sér meðferðarheimilið Háholt og hittu þar sveitarstjóra og fulltrúa sveitarstjórnar. Jón Gnarr, þingmaður, hefur svo tekið málið áfram á Alþingi. Á mánudagskvöldið héldum við opinn fund á Laugarbakka og óraði ekki fyrir því að hátt í 70 manns myndu sækja slíkan fund. Þó var það svo. Þarna áttu sér stað dýrmæt samtöl sem við munum seint gleyma um framtíð landbúnaðar og málefni barna. Þarna var fólk sem gerði sér langa ferð til að koma og eiga við okkur samtal og leyfa okkur að hlusta á þeirra sjónarmið. Við ykkur öll segjum við, takk!

---

Það er ljóst að hreinskiptin samtöl í augnhæð er það sem þokar okkur áfram í umræðunni. Við leggjum áherslu á að koma umræðunni upp úr skotgröfum og hlökkum til að eiga slík samtöl áfram á þeim nótum. Það er hagur okkar allra að finna lausnir á þeim þröskuldum sem víða má finna í kjördæminu. Með það að markmiði að auðga svæðið og ýta undir tækifærin sem þar liggja um allt.

Takk fyrir okkur Norðurland vestra, þangað til næst.

F.h. þingflokks Viðreisnar,
María Rut Kristinsdóttir,
þingmaður Norðvesturkjördæmis.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir