Fimm verkefni á Norðurlandi vestra fengu styrki úr Lýðheilsusjóði
Alma B. Möller heilbrigðisráðherra úthlutaði sl. föstudag styrkjum úr Lýðheilsussjóði fyrir árið 2025. Alls voru 98 milljónir til úthlutunar sem öll miða að því að efla lýðheilsu. Fimm verkefni á Norðurlandi vestra hlutu styrki, fjögur þeirra í Húnaþingi vestra og eitt í Skagafirði.
Verkefnin eru eftirfarandi:
Húnaþing vestra – Bætt líðan starfsmanna í Húnaþingi vestra - Geðheilsuátak, kr. 500.000
Grunnskóli Húnaþings vestra – Skólagarðar, kr. 300.000
Grunnskóli Húnaþings vestra – Útileiksvæði fyrir fötluð börn, kr. 300.000
Menningarfélag Húnaþings vestra – Dansskóli Menninarfélags Húnaþings vesstra, kr. 300.000
Varmahlíðarskóli – Svefn, næring og andlegur styrkur, kr. 300.000
Á vef Stjórnarráðsins segir: „Að þessu sinni var áhersla lögð á að styrkja aðgerðir sem miða meðal annars að því að efla geðheilsu barna og fullorðinna og efla félagsfærni ásamt því að draga úr einmanaleika. Einnig var áhersla á áfengis-, vímu- og tóbaksvarnir, næringu, hreyfingu og kynheilbrigði. Við mat á umsóknum fyrir árið 2025 var einnig sérstaklega horft til verkefna sem styðja við minnihlutahópa, stuðla að jöfnuði til heilsu og tengjast nýsköpun á sviði forvarna og heilsueflingar.
Ráðherra úthlutaði styrkjunum að fengnum tillögum stjórnar Lýðheilsusjóðs sem mat umsóknir út frá því hvernig þær falla að hlutverki sjóðsins. Áður höfðu fagráð embættis landlæknis metið allar umsóknir sem bárust. Embætti landlæknis annast daglega umsýslu og reikningshald Lýðheilsusjóðs.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.