Ráðherra í hlekkjum hugarfarsins | Gunnlaugur Sighvatsson skrifar
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra skrifaði pistil í Morgunblaðið fyrir stuttu þar sem hún tilkynnti að hún muni á næstunni leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða í því skyni að auka á gagnsæi eigna- og stjórnunartengsla í sjávarútvegi, breyta reglum um hámarkshlutdeild og þrengja skilgreiningar um yfirráð og tengda aðila. Hún byrjaði grein sína á að vitna til sjónvarpsseríunnar Verbúðarinnar og gat maður ekki skilið þann inngang öðruvísi en að þar væru komin helstu rökin fyrir að grípa þyrfti til aðgerða. Það er afar einkennilegt ef annars gott leikið sjónvarpsefni með ágætt skemmtanagildi, er notað sem helstu rök ráðherra fyrir að taka þurfi á málum og leiðrétta meint óréttlæti stjórnkerfis fiskveiða.
Mér datt í hug ríflega 30 ára gamlir sjónvarpsþættir, “Þjóð í hlekkjum hugarfarsins” sem vissulega voru mjög umdeildir og vöktu umtal á sínum tíma. Þar voru myndbirtingar af heimilum fólks (bænda) birt og sköpuð hugrenningatengsl við umfjöllun um liðinn tíma og ýmsa atburði sem áttu sér stað á sömu stöðum og í engum tengslum við ábúendur jarðanna á þeim tíma. Það virtist vera gert í þeim tilgangi einum að níða niður landbúnaðinn. Væru þeir þættir frumsýndir í dag mætti eflaust búast við að fyrsta hugsun ráðherra væri að skoða fjölskyldutengsl í landbúnaði og þrengja að rekstri búanna með því að endurskilgreina hámarks bústofn hverrar fjölskyldu.
Að skapa ranga ímynd
Tilvísun ráðherra í Verbúðina virðist ekki hafa verið ætlað annað en að skapa kolröng hugrenningartengsl landsmanna um að að eigendur íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja hafi fengið allt upp í hendurnar, farið illa með og hafi ekki þurft neinu að kosta til eða taka áhættu í rekstri sem þeir hafa ákveðið að starfa innan og fjárfesta í. Er þetta sú ímynd sem ráðherra greinarinnar vill draga upp af sjávarútvegi? Grein sem að við Íslendingar getum verið stoltir af og ættum að kynna á jákvæðan hátt út á við í þeirri alþjóðlegu samkeppni sem við búum við.
Vissulega erum við að tala um nýtingu þjóðarauðlindar og svona samlíkingar sem ég set fram hér að framan verða nú seint fullkomnar. En engu að síður er atvinnufrelsi einstaklinga grunnur að bæði starfi bóndans og útgerðaraðilans, en þó um takmörkuð gæði að ræða hvort sem er ræktanlegt land eða auðlindir sjávar. Varðandi sjávarútveg snýst þetta fyrst og fremst um að ná fram skynsamlegri nýtingu auðlindarinnar til hagsbóta fyrir þjóð. Þá ber að gæta sín á því að sjúkdómsgreina nú rétt og beita ekki svo öflugum meðölum til að vinna á litlu meini að það valdi varanlegum skaða á starfsemi greinarinnar.
Það virðist skollið á kapphlaup milli ráðherra ríkisstjórnar um að dæla nú inn frumvörpum og keyra í gegn breytingar sem fyrst. Það er eins og það sé ekki trú á stjórnarheimilinu að það gefist mjög langur tími til að fara yfirvegað í hlutina og ná fram skynsamlegum skrefum í átt að því sem yfirvöld vilja ná fram. Í tilfelli atvinnuvegaráðherra þyrfti það að vera gert með samtali við þá sem í greininni starfa. Engin tími virðist fyrir yfirvegaðar og rökstuddar ákvarðanir eða að gefa tíma til aðlögunar þannig að ekki bitni harkalega á greininni og því starfsfólki sem þar starfar.
Tenging við veruleikann
Það hafa kannski flestir lent í því að lifa sig svo inn í gott sjónvarpsefni að það taki tíma að kippa sér til baka í raunveruleikann. Af brennandi tilfinningasemi út í óréttlæti í garð góða fólksins og heift út í vonda kallinn tekur kannski tíma að átta sig á að allt var þetta leikið, kannski byggt í grunninn að einhverju leyti á sönnum atburðum en gjarnan er nú bætt í á réttum stöðum til að búa til spennandi sjónvarpsefni. Það eru 40 ár liðin frá upphafi aflamarkskerfisins og stærstu fyrirtækin hafa bætt sinn rekstur með uppkaupum á aflahlutdeildum og annarri hagræðingu. Það eru sífellt minni tengsl við upphafið og vafasöm taktík af ráðherra málaflokksins að skapa svona hugrenningartengsl milli raunveruleika nútíðar og skáldskapar um fortíðina.
Íslenskur sjávarútvegur þarf á stórum og öflugum sjávarútvegsfyrirtækjum að halda. Það er vonandi að frumvörp atvinnuvegaráðherra á sviði sjávarútvegs beri með sér að hafa verið unnin af yfirvegun og studd rökum þegar þau koma fyrir sjónir þings og þjóðar. Ég vona jafnframt að í þeirri vegferð beri henni gæfu til að eíga gott samtal við forsvarsfólk innan greinarinnar. Að henni takist að verða öflugur málsvari sjávarútvegs og vinna með fyrirtækjum og samtökum þeirra í þeirri viðleitni að ná viðunandi niðurstöðu og árangri. Að minnsta kosti vona ég að hún verði ekki lengi föst í hlekkjum þess hugarfars sem birtist í upphafi pistils hennar.
Gunnlaugur Sighvatsson
sjávarútvegsfræðingur
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.