Dansskóli Menningarfélags Húnaþings vestra á heimsmeistaramót í dansi
Dansskóli Menningarfélags Húnaþings vestra átti glæsilega frammistöðu í undankeppni Dance World Cup sem haldin var á stóra sviðinu í Borgarleikhúsinu helgina 21.-23. febrúar. Danshópur skólans hafnaði í þriðja sæti í sínum flokki, sem tryggir hópnum sæti á heimsmeistaramótinu í dansi, Dance World Cup, sem fram fer á Spáni í júlíbyrjun. Með þessum frábæra árangri munu dansararnir frá Norðurlandi vestra vera fulltrúar Íslands á þessu alþjóðlega móti þar sem keppendur koma víðs vegar að úr heiminum, segir á vef ssnv.is.
Menningarfélag Húnaþings vestra hefur lagt mikla áherslu á að efla dansmenningu á svæðinu og hefur dansskóli félagsins notið stuðnings frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra til að efla starfsemi skólans. Skólinn er starfræktur í Húnaþingi vestra og Húnabyggð. Með þessum frábæra árangri hefur Dansskóli Menningarfélags Húnaþings vestra sannað gildi sitt sem mikilvægur hluti af menningar- og listalífi svæðisins.
"Krakkarnir stóðu sig frábærlega, og langt umfram það sem ég þorði að gera mér vonir um. Þau hafa sannað að þau eiga fullt erindi á lokakeppnina. Það verður að viðurkennast að við stöndum allt í einu frammi fyrir stóru verkefni til að fjármagna ferð þeirra á keppnina. Við erum þakklát allri liðveislu við að koma þessum glæsilegu fulltrúum landshlutans á lokakeppnina á Spáni." segir Sigurður Líndal formaður Menningarfélags Húnaþings vestra.
Fyrir þá sem vilja styðja danshópinn og leggja sitt af mörkum við að standa straum af ferðakostnaði til Spánar á Dance World Cup, er hægt að leggja inn framlög á bankareikning Menningarfélags Húnaþings vestra: Kennitala: 580116-2130 Reikningsnúmer: 0159-05-060370.
SSNV og Feykir senda hópnum innilegar hamingjuóskir og óska þeim góðs gengis á Dance World Cup!
Frétt tekin af vef ssnv.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.