Blómlegt samfélag eða krónur í kassann? | Álfhildur Leifsdóttir skrifar
Ákvörðun meirihluta byggðarráðs um sölu flestra félagsheimila í dreifðum byggðum Skagafjarðar hefur nú verið tekin með stuðningi Byggðalista eins og sjá má í fundargerð Byggðarráðs hér. Á sama tíma og stefnt er að byggingu menningarhúss á Sauðárkróki vakna margar spurningar um bæði forgangsröðun og skilning þeirra á menningu.
Er menning aðeins í þéttbýli? Skiptir mikilvægi félagsheimilanna sem um ræðir i fyrir nærsamfélögin á hverjum stað engu í ákvarðanatökunni? Er hlutverk kjörinna fulltrúa að stuðla að blómlegu samfélagi eða er mikilvægara að ná í krónur í kassann?
Menning er ekki bara í þéttbýli
Félagsheimilin í Skagafirði eru meira en bara hús, þau eru tákn um sögu, samstöðu og menningarlegt sjálfstæði dreifðra byggða. Þessi hús voru reist af kvenfélögum, ungmennasamböndum og öðrum félagasamtökum sem höfðu framtíðarsýn um samfélagslega velferð og menningarlega fjölbreytni. Þau eru arfleifð sjálfboðavinnu og metnaðar fólksins sem byggði þau upp til að efla samfélagið sitt. Á tímum sameiningar gömlu hreppanna runnu þessi hús inn í eignabanka sveitarfélagsins Skagafjarðar og íbúar misstu þannig eignarhald húsanna og umráðarétt sinn.
Samfélagslegt hlutverk félagsheimila
Það er ekki eingöngu menningarlegt gildi félagsheimilanna sem skiptir máli heldur einnig félagslegt mikilvægi. Þau eru staðir þar sem íbúar geta hist og fagnað, syrgt, skipulagt viðburði, dansað á þorrablótum og jólaböllum og þannig tekið þátt í menningu í nærsamfélaginu sínu og viðhaldið sterkum tengslum innan samfélagsins og styrkt sérstöðu hvers samfélags. Í dreifðum byggðum, þar sem langar vegalengdir eru á milli fólks, gegna slík hús lykilhlutverki í að viðhalda félagslegum tengslum.
Kjörnir fulltrúar hafa heyrt á íbúafundum að vilji sé fyrir hendi til að halda sumum þessara félagsheimila í áframhaldandi þjónustu við samfélögin. Í Hegranesi hefur verið lögð fram lausn sem myndi tryggja áframhaldandi notkun félagsheimilisins án kostnaðar fyrir sveitarfélagið. Að sjálfsögðu ættu kjörnir fulltrúar að leita leiða til að nýta þessi hús áfram í samræmi við þarfir samfélagsins. Enda leyfir stjórnsýslan það með ákveðnum hætti og er fordæmi um slíkt hjá sveitarfélaginu þegar “Hlaðan” sem nú er veitingahúsið Sauðá fékk nýtt hlutverk sem sannarlega hefur tekist vel. Í Ljósheimum kom skýrt fram að félagsheimilið þjónar félagasamtökum sem hafa tæplega aðra aðstöðu til að hittast, en í Skagaseli vilja heimamenn fá líf í húsið að nýju. Vafalaust hafa íbúar í nágrenni annarra félagsheimila hugmyndir og áform fyrir sín hús. Af hverju ætti sveitarfélagið ekki að vinna með íbúum að lausnum sem þjóna íbúum um leið og viðhaldskostnaður færist af höndum sveitarfélagsins, í stað þess að selja þau hæstbjóðanda? Gangi áformin svo ekki upp verður húsunum skilað til sveitarfélagsins sem þá getur tekið aðrar ákvarðanir í framhaldi.
Menning fyrir öll
Það er áhyggjuefni að hvorki meirihlutinn né Byggðalisti virðast hafa sama viðmið þegar kemur að menningu í dreifðum byggðum og í þéttbýli. Félagsheimilin eru söguleg og menningarleg mannvirki sem skipta íbúa máli, en samt á að selja þau af fjárhagsástæðum á meðan nýtt menningarhús er á teikniborðinu í Sauðárkróki. Það hlýtur að gefa íbúum dreifðari byggða skýr skilaboð um að þeirra menning skipti minna máli en menning í þéttbýli. En menning er ekki bundin við steinsteypt menningarhús í bæjum, hún lifir í fólkinu, í söngnum, í dansinum, í minningunum sem verða til í félagsheimilunum í hverju samfélagi.
Félagsheimilin eru hjarta smærri samfélaga
Í stað þess að líta á félagsheimilin sem byrði ættum við að skoða hvernig hægt er að efla þau sem menningar- og samfélagsmiðstöðvar til framtíðar. Við þurfum að kortleggja hvernig hægt er að nýta þessi hús betur og á nýstárlegan hátt og hvort sveitarfélagið geti unnið með íbúum að sjálfbærum rekstrarformum sem gagnast menningarlegu og félagslegu sjónarmiði. Ef samfélögin eru tilbúin að taka ábyrgð og halda þessum mannvirkjum lifandi, þá er skylda sveitarfélagsins að hlusta og vinna með þeim.
Við í VG og óháðum teljum að engin félagsheimili í jaðarbyggðum eða svæðum þar sem þau gegna lykilhlutverki í félagslífi og samheldni samfélagsins eigi að vera seld, nema þá með breiðri sátt við íbúa. Menning á sér ekki eingöngu stað í þéttbýli, heldur þar sem fólk kemur saman og deilir upplifunum sem halda samfélögum saman.
Við skulum ekki svíkja þá arfleifð sem fyrri kynslóðir hafa byggt upp heldur byggja upp blómlegt og menningarlegt samfélag um allan Skagafjörð.
Álfhildur Leifsdóttir
sveitarstjórnarfulltrúi VG og óháðra Skagafirði
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.