Krækjurnar eru bestar :)
Helgina 14. og 15. febrúar fór fram hið árlega blakmót í Fjallabyggð, Benecta mót Blakfélags Fjallabyggðar, og er þá spilað bæði á Ólafsfirði og Siglufirði. Krækjurnar á Króknum létu sig ekki vanta á þetta frábæra mót og skráði tvö lið til leiks. Bæði liðin spiluðu fimm leiki hvor, A-liðið í 1. deild og B-liðið í 5. deild, og fóru leikar þannig að Krækjur A sigruðu sinn riðil og enduðu því í 1. sæti á mótinu.
Bæði liðin spiluðu þrjá leiki á föstudagskvöldinu og tvo á laugardeginum og voru allir leikirnir jafnir og skemmtillegir. Hver leikur er spilaður upp í 21 stig og eru spilaðar tvær hrinur og náðu Krækjur A að vinna allar sínar hrinur nema eina en B-liðið náði aðeins að vinna eina hrinu sem er reyndar bæting síðan í fyrra. Á laugardagskvöldinu var svo verðlaunaafhending í Bátahúsinu þar sem Krækjurnar tóku á móti 1. verðlaununum en eftir hana var rölt yfir á Rauðku í mat og drykk og svo var að sjálfsögðu dansað fram á rauða nótt.
Þá er einnig vert að nefna að undanfarin ár hafa Krækjur (UMF. Hjalti) spilað í 2. deildinni á Íslandsmótinu í blaki og hafa náð að halda sér þar síðan veturinn 2018-2019. Það hefur reyndar verið misjafnt hvort þær hafa spilað í efri eða neðri hluta 2. deildarinnar en í ár náðu þær að tryggja sig í efri úrslitum þar sem sex efstu liðin spila um þátttökurétt í 1. deildinni á næsta ári. Úrslitin fara fram þann 14. – 16. mars á Akureyri og aðeins þrjú efstu liðin fá þann heiður að spila í 1. deildinni að ári. Það verður því gaman að fylgjast með gangi mála hjá Krækjunum á þessu móti og Feyki segir að sjálfsögðu frá gangi mála.
Feykir óskar þeim til hamingju með frábæran árangur á Benecta mótinu og gangi ykkur sem allra best á Íslandsmótinu í mars. Áfram Krækjur!
Á myndinni til hægri má sjá þær Krækjur sem spiluðu á Íslandsmótinu í nóvember 2024.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.