Nú er allt sem áður var, eldsneytið og Bjarni Har
Einar Kristinn Guðfinnsson, náfrændi kaupmannsins síunga á Króknum Bjarna Har, brýndi á Facebook síðu sinni skagfirska hagyrðinga til að yrkja um Bjarna og þá staðreynd að nú má hann selja olíu eftir að Heilbrigðisnefnd NV hafði frestað leyfissviptingu, þar að lútandi, um áramótin.
Tildrög brýningar Einars var að Haraldur Sigurðsson á Sleitustöðum kom í búðina hjá Bjarna einn morguninn og lagði meðfylgjandi vísu á búðarborðið:
Ef þarftu að fylla á þitt kar,
þá ferðu í Norðurbæinn.
Aftur fæst bensín hjá Bjarna Har,
sem býður þér góðan daginn.
Og í kjölfarið mætti Árni Gunnarsson, hagyrðingur og kvikmyndagerðarmaður, en hann gerði skemmtilega og fína heimildarmynd um Verslun Haraldar Júlíussonar og Bjarna Har. sjálfan.
Allt er komið í eðlilegt far,
eftirlitsmaðurinn þagnaður.
Bensínið rennur hjá Bjarna Har.
og bisnessinn alveg magnaður.
Ólafur Sigurgeirsson líffræðingur og lektor við Hólaskóla var fljótur til svars.
Vinskapur hefur viðmót hlýtt
svo versla mun ég áfram þar.
Allt er nú sem orðið nýtt
Eldsneytið og Bjarni Har.
Bjorn Líndal, framkvæmdastjóri SSNV eina limru fjúka.
Hann átt hefur ævina langa
er ennþá að seðja hinn svanga.
Hann Bjarni minn Har
á alltaf til svar,
og enn lætur dæluna ganga.
Ólafur Atli Sindrason, kennari í Varmahlíðarskóla, er af hagyrðingum kominn og lét ekki sitt eftir liggja.
Lausnir víst hann löngum fann
ljúfmennið að tarna.
Eldsneytið frá Olís rann
aftur - þar hjá Bjarna.
Gunnar Rögnvaldsson á Löngumýri kann að sega frá í bundnu máli.
Rúnna þurfti reglurnar
svo renna færi um slöngurnar.
Nú er allt sem áður var,
eldsneytið og Bjarni Har.
Séra Hjálmar Jónsson þjónar nú Sauðkrækingum á ný í námsleyfi Sigríðar Gunnarsdóttur sóknarprests Króksara. Hann sló botninn í umræðuna og segir:
Einn er frækinn innan fjarðar
aðalsmaður, lord og sör.
Eldsneyti úr iðrum jarðar
afgreiðir með bros á vör.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.